Lengri ferðir 2023

 

LeNGRI FERÐIR SUMARIÐ 2023

Sumarleyfis- og helgarferðir

Erfiðleikastig ferða

Búnaðarlistar

28. - 30. apríl, helgarferð
Laugafell: Skíðaganga   
Brottför kl. 13 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Aðalsteinn Árnason
Um er að ræða þriggja daga vetrarferð sem krefst viðeigandi vetrarbúnaðar. Gist verður í skálunum Berglandi og Laugafelli.
1. d., föstudagur: Hólsgerði - Bergland
Ekið að Hólsgerði og skíðin spennt á gönguhópinn.
Vegalengd 15 km. Hækkun 840 m.
2. d., laugardagur: Bergland - Laugafell
Vegalengd um 20 km. Gönguhækkun óveruleg.
Ef veður er gott þá verður gengið um Sesseljubæ í Geldingsárdrögum á leiðinni í Laugafell. Laugin í Laugafelli bíður ylvolg eftir lúnum göngumönnum.
3. d., sunnudagur: Laugafell - Hólsgerði
Vegalengd 35 km, töluvert undan fæti í lok dags.
Stefnt á að vera komin að fremsta bæ í Eyjafirði fyrir myrkur.
Um vetrarferð er að ræða og þurfa þátttakendur að vera útbúnir samkvæmt því. Nauðsynlegur búnaður eru utanbrautarskíði með stálköntum, hlýr fatnaður, hlýir skór, bakpoki eða púlka.
Verð: 10.000/13.500. Innifalið: Fararstjórn og gisting í tvær nætur.

SKRÁNING

14. - 16. júlí
Náttúruskoðun og sjálfsrækt í Fjörðum   
Brottför kl. 13 á einkabílum (jeppum eða jepplingum) frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ásdís Skúladóttir og Birna Guðrún Baldursdóttir.
Fjörður er einstakur staður þar sem kyrrðin, fjöllin og litadýrðin umlykja okkur. Þangað er ferðinni heitið í skemmtilega og nærandi gönguferð sem felur í sér verkefni til sjálfsræktar, hugleiðslu, sjóböð, léttar jógaæfingar, sjálfsþekkingarleiki og heilsufæði svo eitthvað sé nefnt. Gist verður tvær nætur í skála á Þönglabakka í Þorgeirsfirði þar sem er góð aðstaða.
1. d., föstudagur: Ekið sem leið liggur í Fjörður. Ganga dagsins er frá Hvalvatnsfirði yfir í Þorgeirsfjörð. Vegalengd 5 km. Gönguhækkun 100 m.
Stutt kvöldganga og hugleiðsla.
2. d., laugardagur: Eftir morgunverð er gengið yfir í Keflavík þar sem dvalið verður um stund við létt jóga og slökun. Gengið til baka.
Vegalengd 14 km. Gönguhækkun 900 m.
3. d., sunnudagur: Létt jóga og sjóbað fyrir þá sem vilja. Gengið til baka um hádegi. Gert ráð fyrir að koma til Akureyrar um kl. 15:30.
Vegalengd 5 km. Gönguhækkun 100 m.
Verð: 23.000/26.000. Innifalið: Fararstjórn og gisting í tvær nætur. Hámarksfjöldi 14 manns.
Sameiginlegur matur sem greiðist sérstaklega. Fararstjórar sjá um að kaupa inn og elda.

SKRÁNING

16. - 19. júlí, fjögurra daga ferð
Bræðrafell - Askja   
Brottför kl. 8 úr Mývatnssveit.
Fararstjórn: Marjolijn van Dijk.
Farið úr Mývatnssveit annað hvort á einkabílum eða með rútu. Gist er í Bræðrafelli og Dreka. Bera þarf allan farangur og því mikilvægt að huga að því sem tekið er með. Svæðið sem farið er um státar af fallegum hraunmyndunum, auðn, litadýrð og ekki síst kyrrð. Nálægðin við Herðubreið hefur líka sín áhrif.
1. d., sunnudagur: Ekið í Herðubreiðarlindir. Eftir kaffi er gengið um greiðfært hraun í Bræðrafell og gist. Vegalengd 19 km.
2. d., mánudagur: Gengið á Kollóttudyngju og Bræðrafell skoðað. Gist í Bræðrafellsskála. Vegalengd 8-12 km.
3. d., þriðjudagur: Gengið frá Bræðrafelli í Drekagil. Gist í Dreka. Vegalengd 21-22 km.
4. d., miðvikudagur: Gengið frá Dreka yfir Dyngjufjöll að Öskju. Ekið heim um kvöldið. Vegalengd 8-10 km. Gönguhækkun er óveruleg.
Verð: 37.000/42.000. Innifalið: Fararstjórn og gisting í þrjár nætur. Ekki innifalið: Ferðir, matur.

SKRÁNING

23. - 27. júlí, fimm daga ferð 
Öskjuvegurinn: TRÚSSFERР  
Brottför kl. 13 með rútu frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Guðlaug Ringsted.
Í ferðinni er gengið með lágmarksbúnað. Trússbíll ekur með farangur á milli skála. Bíllinn fylgir hópnum allan tímann. Rúta sækir svo hópinn í lok ferðar. Gist í skálum FFA, Dreka, Dyngjufelli og Botna.
1. d., sunnudagur: Ekið í Dreka, með viðkomu í Herðubreiðarlindum.
2. d., mánudagur: Gengið eftir stikaðri leið frá Drekagili, yfir Dyngjufjöll að Öskju, farið í sund í Víti ef vill. Hópurinn verður sóttur á bílastæðið við Öskjuop og ekið til baka að Dreka, gist þar aðra nótt. Vegalengd 13-14 km.
3. d., þriðjudagur: Ekið upp í Öskjuop. Gengið eftir stikaðri leið þaðan, yfir Dyngjufjöll um Jónsskarð og niður í Dyngjufjalladal. Gist í Dyngjufelli, skála FFA. Vegalengd 14 km.
4. d., miðvikudagur: Frá Dyngjufelli er gengið norður Dyngjufjalladal í Suðurárbotna. Gist í Botna, skála FFA. Vegalengd 20-22 km.
5. d., fimmtudagur: Lokadagur; gömlum jeppaslóða er fylgt frá Botna í Suðurárbotna og meðfram Suðurá að Svartárkoti. Vegalengd 15-16 km. Ekið með rútu til Akureyrar. Gert ráð fyrir að koma þangað um kl. 17.
Verð: 88.000/93.000. Innifalið: Fararstjórn, gisting í fjórar nætur, rúta og trússbíll með bílstjóra.

SKRÁNING

11. - 13. ágúst
Helgarferð á Herðubreið   
Brottför kl. 17 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Leo Broers og Marjolijn van Dijk.
Árleg ferð FFA á þjóðarfjallið Herðubreið (1682 m). Gist í Herðubreiðarlindum, í skála FFA eða í tjaldi. Nauðsynlegt að vera á jeppum.
1. d., föstudagur: Lagt af stað frá Akureyri kl. 17. Ekið í Herðubreiðarlindir.
2. d., laugardagur: Gengið á Herðubreið.
3. d., sunnudagur: Haldið heim. Gert ráð fyrir að koma til Akureyrar seinnipart dags.
Hjálmur er nauðsynlegur öryggisbúnaður.
Gönguhækkun 1000 m.
Verð: Í skála 16.000/21.000. Í tjaldi 10.000/13.000. Innifalið: Fararstjórn og gisting í tvær nætur.

SKRÁNING

9. - 10. september
Helgarferð í Botna   
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Anke Maria Steinke.
Ekið í Svartárkot. Gengið í Botna, skála FFA í Suðurárbotnum, gist þar og farið til baka næsta dag. Ferðast verður um heillandi víðáttu hálendisins þar sem haustlitirnir skarta sínu fegursta á þessum árstíma og aldrei að vita nema norðurljósin láti sjá sig.
Vegalengd alls 19 km. Gönguhækkun lítil.
Verð: 10.000/12.000. Innifalið: Fararstjórn og gisting í eina nótt.

SKRÁNING