Gengið inn í haustið með FFA

Gengið inn í haustið með FFA 2022 

Hópur fyrir fólk sem hefur áhuga á útiveru og fjallgöngum að hausti og vetri.

Gengið inn í haustið með FFA er fyrir fólk sem hefur einhverja reynslu af fjallgöngum eða er í ágætu gönguformi og langar að kynnast göngum í brattlendi betur. Göngurnar saman standa af þremur styttri göngum í nærumhverfi Akureyrar (2-3 klst.) og þremur lengri fjallgöngum (5-7 klst.).

Markmið hópsins verður að njóta fremur en þjóta og nýta göngurnar til að æfa sig og efla við ólík skilyrði hvað varðar veður og færð undir handleiðslu fararstjóra. Göngurnar henta engu að síður vel til að halda sér í góðu gönguformi eða bæta við sig styrk og þoli.

Fararstjórar leggja áherslu á að allir njóti sín, upplifi sig örugg og komi úr göngu full tilhlökkunar í þá næstu.

Miðað er við að styttri ferðirnar séu á þriðjudögum (fimmtudagur til vara) og lagt af stað kl. 17:00. Allar ferðir og dagsetningar eru settar upp með fyrirvara um breytingar sökum veðurs eða færðar. Helgargöngurnar gætu farið yfir á sunnudaga ef veðurútlit er hagstæðara og einnig verður fjallstindur ákveðinn með tilliti til færðar, vindáttar og getustigs þátttakenda.

Þátttakendur ferðast á eigin ábyrgð. FFA tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra og hvetur fólk til að kynna sér eigin heimilistryggingar eða kaupa ferða- og slysatryggingu.

Fésbókarsíða verður stofnuð fyrir hópinn þar sem veittar verða upplýsingar fyrir hverja ferð. Einnig er gott að nota síðuna til að bera upp spurningar, setja inn myndir og skoða myndir frá öðrum.

Verð: 20.500 kr.

Verkefnið hefst 13. september og lýkur um miðjan október. Skráningu lýkur 7. september.
Lágmark: 12 þátttakendur.

2022: Umsjón og fararstjórn er í höndum Arnars Bragasonar en honum til aðstoðar verða Eyrún B. Þorfinnsdóttir og Áslaug Melax.