- Skrifstofan
- Félagið
- Ferðir og viðburðir
- Hreyfiverkefni
- Skálar
- Myndir
Möðruvallafjall í Eyjafirði fram
- ![]()
8. ágúst, laugardagur
Brottför kl. 8 með rútu frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Ásdís Skúladóttir og Sigurbjörg Rún Jónsdóttir
Möðruvallafjall er tignarlegt fjall sem rís yfir austanverða Eyjafjarðarsveit. Það tengist nærliggjandi fjöllum og hálendissvæðum og býður upp á fjölbreyttar og skemmtilegar gönguleiðir. Útsýnið af fjallinu er mikið og þar sem má njóta kyrrðar og náttúrufegurðar í ríkum mæli. Í þessari ferð er ætlunin að kanna landslagið, njóta samveru og upplifa náttúruna. Fyrsti hluti leiðarinnar er nokkuð brattur, en eftir það er hún fremur greiðfær. Ekið verður fram Eyjafjörð að austanverðu og bílum lagt við Sámsstaði, þar sem gangan hefst. Gengið verður upp á hálsinn ofan við bæinn og þaðan að Öxnafellsnibbu (820 m), sem er nyrsti hluti Möðruvallafjalls. Þaðan verður haldið suður eftir fjallinu að hæsta punkti þess, um 1000 m yfir sjávarmáli. Gangan heldur áfram til suðurs þar til komið er að Illagili í Sölvadal. Þá verður gengið á Kerhólsöxlina (960 m) og þaðan fylgt þægilegum vegslóða niður í Sölvadal með Illagil á hægri hönd. Gengið er yfir brú á Núpá norðan Eyvindarstaða, þar sem ferðinni lýkur. Að lokinni göngu verður hópurinn sóttur í Sölvadal síðla dags.
Vegalengd: 21 km. Gönguhækkun: 1100 m.
Mikilvægt er að þátttakendur séu í góðum gönguskóm og hafi meðferðis göngustafi. Nauðsynlegt er að taka með sér orkuríkt nesti og nægt vatn. Á leiðinni verða teknar góðar pásur og ef aðstæður leyfa verður boðið upp á hugleiðslu og slökun fyrir þá sem vilja. Að göngu lokinni verða gerðar teygjuæfingar til að liðka líkamann.
Verð: Verð: 5.200 / 6.900 kr. Innifalið: Fararstjórn.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.