Barna- og fjölskylduferðir FFA 2023

Árið 2021 byrjaði Ferðafélag Akureyrar með skipulagðar barna- og fjölskylduferðir og tókst vel. Á ferðaáætlun 2023 eru sjö ferðir þar af tvær þar sem gist verður. Ferðirnar eru sniðnar að þörfum barna og farnar á þeirra forsendum. Gengið er út frá að börnin séu í fylgd með foreldrum eða öðrum forsjáraðilum.

Ferðatími sem gefinn er upp er aðeins viðmið, tíminn fer alltaf eftir hópnum og aðstæðum hverju sinni.

Allir eru velkomnir í barna- og fjölskylduferðir FFA árið 2023 og ekkert þátttökugjald nema í ferðum þar sem gist er. Þátttakendur þurfa að skrá sig og börnin í ferðirnar. Skráningarhnappur er við hverja ferð og við viðburði fyrir ferðina.

Stutt myndakynning 2022

Að ferðast með börnum - fróðleikur 
Góð ráð fyrir foreldra - fróðleikur

Ferðir 2023

16. maí, þriðjudagur: Fuglaskoðunarferð
Myndir úr fuglaskoðunarferð barnanna 2021

Brottför kl. 17 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Jón Magnússon og Sverrir Thorstensen
Fuglaskoðunarferð barnanna hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár en í henni gefst börnunum tækifæri til að kíkja á og fræðast um hina ýmsu fuglategundir undir skemmtilegri leiðsögn fuglakallanna Jóns og Sverris. Gott er að taka með sér sjónauka og skriffæri - það getur verið gaman að skrá niður þær fuglategundir sem maður sér. Farið verður að Kristnestjörn í Eyjafirði.

Ferðin tekur u.þ.b. 2 klst.
Þátttaka ókeypis. 

 8. júní, fimmtudagur: Gengið að Gamla

Brottför kl. 17 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Fjóla Kristín Helgadóttir
Gengið er frá bílastæðinu við Sólúrið í Kjarnaskógi og þaðan upp að Gamla, skála skáta á Akureyri. Svipuð leið verður gengin til baka. Gangan upp eftir er nokkuð á fótinn en gengið verður rólega svo allir njóti sem best.
Vegalengd alls 3-4 km. Gönguhækkun 190 m.
Þátttaka ókeypis.

14. júní, miðvikudagur: Kvöldferð á Haus í Staðarbyggðarfjalli

Brottför kl. 19 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23. 
Fararstjórn: Hulda Jónsdóttir
Ekið fram Eyjafjörð að austanverðu að Öngulsstöðum. Þaðan er ekið eftir malarvegi að bílastæði við sumarbústaðinn Sel. Gengið er eftir stikaðri leið að vörðunni á Haus sem er fyrsti áfanginn þegar gengið er á Staðarbyggðarfjall. Þaðan er frábært útsýni og gaman að njóta með börnum á fallegu sumarkvöldi.
Vegalengd 3,3 km. Gönguhækkun 270 m.
Þátttaka ókeypis.

1. júlí, laugardagur: Steinmenn ofan við Kjarnaskóg

Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Herdís Zophoníasdóttir
Gengið er frá tjaldsvæðinu á Hömrum upp að skátaskálanum Gamla. Þaðan er haldið áfram eftir stikaðri leið að Steinmönnum. Frá þessum skemmtilegu steinkörlum er stórkostlegt útsýni til allra átta. Sama leið gengin til baka. 
Vegalengd alls 7-8 km. Gönguhækkun 400 m.
Þátttaka ókeypis.

SKRÁNING

13. - 14. júlí: Derrir í Þorvaldsdal

Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ásrún Ösp Jónsdóttir
Ferðin er á fimmtudegi og föstudegi. 
Lagt af stað frá bílastæðinu við Stærri-Árskóg og gengið þaðan fram Þorvaldsdal í skálann Derri þar sem gist verður eina nótt.
Ef einhverjir vilja heldur taka með sér tjald þá er líka hægt að gista í tjöldum við skálann.
Vegalengd alls 18 km (9 km hvorn dag). Gönguhækkun lítil nema rétt í upphafi.
Verð: Fullorðnir 9.500/13.000, frítt fyrir börn. Innifalið: Fararstjórn og gisting í eina nótt fyrir einn fullorðinn og börn.

SKRÁNING

12. - 13. ágúst: Helgarferð í Lamba

Brottför kl. 10 frá bílastæði við uppgöngu á Súlur.
Fararstjórn:  Jónína Sveinbjörnsdóttir. 
Lagt er af stað frá bílastæðinu við uppgönguna á Súlur og gengið fram Glerárdal í skálann Lamba þar sem gist verður eina nótt. Ferðin býður upp á fjölbreytta upplifun úti í náttúrunni m.a. þarf að stikla yfir læki á leiðinni. Lambi er vel útbúinn fjallaskáli með olíukyndingu og gashellu en sækja verður drykkjarvatn í lækinn. Þegar komið er fram í ágúst er farið að dimma á kvöldin og gaman að upplifa myrkrið í fjallakyrrðinni.
Vegalengd alls 22 km (11 km hvorn dag). Gönguhækkun 440 m.
Verð: Fullorðnir 9.500/13.000, frítt fyrir börn. Innifalið: Fararstjórn og gisting í eina nótt fyrir einn fullorðinn og börn.

SKRÁNING

17. ágúst, fimmtudagur: Miðvíkurfoss og fjöruferð

Brottför kl. 17 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Fjóla Kristín Helgadóttir
Ekið að Miðvík beint niður af Víkurskarði. Gengið þaðan niður í fjöru og að tignarlegum fossi, Miðvíkurfossi sem fellur hér fram af niður í fjöru. Nokkuð bratt er þarna niður og svolítið klöngur, en stutt. Fjaran er áhugaverð fyrir börn en mjög grýtt og því nauðsynlegt að vera í góðum skóm. Miðvíkurfoss er falin perla, afar fallegur. Á leiðinni til baka verður efri fossinn skoðaður sem er ekki síður tignarlegur.
Þátttaka ókeypis.

SKRÁNING