Barna- og fjölskylduferðir FFA 2021

Nú fer Ferðafélag Akureyrar af stað með barna- og fjölskylduferðir. Ferðirnar eru sniðnar að þörfum og á forsendum barna. Gengið er út frá að börnin séu í fylgd með foreldrum eða öðrum forsjáraðilum.
Allir eru velkomnir í barna- og fjölskylduferðir FFA árið 2021 og ekkert þátttökugjald og engin skráning.

 Að ferðast með börnum - fróðleikur 

19. maí. Fuglaskoðunarferð

Brottför kl. 17 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Jón Magnússon og Sverrir Thorstensen
Í maí er vorið að vakna og rétti tíminn til að skoða fuglana okkar. Í fuglaskoðunarferðinni ætlum við að reyna að sjá og heyra eins margar tegundir og mögulegt er og kenna ykkur að þekkja sem flesta fugla bæði staðfugla og farfugla. Tveir skrýtnir og skemmtilegir fuglakallar ætla að leiðbeina okkur við skoðunina. Gott er að hafa með sér kíki og skriffæri svo þarf að klæða sig eftir veðri því það getur verið kalt.
Ferðin tekur u.þ.b. 2 klst.

12. júní. Gönguferð í Mývatnssveit

Brottför kl. 13 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Herdís Zophoníasdóttir
Ekið verður austur í Mývatnssveit. Gengið á Hverfjall sem er skemmtileg ganga fyrir börn, frábært útsýni er af fjallinu. Tröllin í Dimmuborgum heimsótt og / eða fuglasafnið í Mývatnssveit þar sem hægt er að skoða fuglana í nálægð og heyra hljóð þeirra. Gönguhækkun tæplega 400 m.
Ferðin tekur u.þ.b. 4-5 klst. 

30. júní. Náttúruskoðun í Krossanesborgum

Mæting kl. 17 á neðra/stærra bílastæðið norðan við Óðinsnes.
Fararstjórn: Brynhildur Bjarnadóttir
Fjölskyldurölt um Krossanesborgir þar sem sjónum verður beint að blómum og smádýrum. Þægilegur göngutúr fyrir allan aldur þar sem við stoppum reglulega, skoðum blómin og kíkjum á dýr eins og köngulær, flugur og ánamaðka. Gott að taka með stækkunargler.
Ferðin tekur u.þ.b. 2 klst. 

8. ágúst. Hraunsvatn, göngu- og veiðiferð

Brottför kl. 13 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Herdís Zophoníasdóttir
Ekið verður að bænum Hálsi í Öxnadal, þaðan er gengin stikuð leið að Hraunsvatni. Gangan að vatninu tekur rúman klukkutíma. Börn eru hvött til að hafa með sér veiðistangir og beitu (maðk, rækju, gular baunir) til að renna fyrir fisk. Mögulegt er að ganga kringum vatnið fyrir þá sem vilja. Vegalengdin er 6 km. Gönguhækkun 270 m.
Ferðin tekur u.þ.b. 4-5 klst. 

19. ágúst. Berjaferð

Mæting kl. 17 á bílastæðið við Hamra.
Fararstjórn: Fjóla Kristín Helgadóttir
Þegar skuggarnir lengjast er fátt skemmtilegra en að fara í berjamó.  Farið verður í berjaferð í brekkurnar ofan við Hamra. Börnin taka með sér ílát eða tína bara upp í sig.
Ferðin tekur u.þ.b. 2 klst.