Barna- og fjölskylduferðir FFA 2022

Árið 2021 byrjaði Ferðafélag Akureyrar með skipulagðar barna- og fjölskylduferðir og tókst vel. Á ferðaáætlun 2022 eru því fleiri ferðir.
Ferðirnar eru sniðnar að þörfum barna og farnar á þeirra forsendum. Gengið er út frá að börnin séu í fylgd með foreldrum eða öðrum forsjáraðilum.
Ferðatími sem gefinn er upp er aðeins viðmið, tíminn fer alltaf eftir hópnum og aðstæðum hverju sinni.
Allir eru velkomnir í barna- og fjölskylduferðir FFA árið 2022 og ekkert þátttökugjald. Þátttakendur þurfa að skrá sig og börnin í ferðirnar. Skráningarhnappur er við hverja ferð og við viðburði fyrir ferðina.

Stutt myndakynning 2022

Að ferðast með börnum - fróðleikur 
Góð ráð fyrir foreldra -     fróðleikur

Ferðir 2022

17. maí. Fuglaskoðunarferð (breytt tímasetning vegna veðurútlits þann 11.) -
Myndir úr fuglaskoðunarferð barnanna 2021

Brottför kl. 17 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Jón Magnússon og Sverrir Thorstensen
Í maí er vorið að vakna og rétti tíminn til að skoða fuglana okkar. Í fuglaskoðunarferðinni ætlum við að reyna að sjá og heyra eins margar tegundir og mögulegt er og kenna ykkur að þekkja sem flesta fugla bæði staðfugla og farfugla. Tveir skrýtnir og skemmtilegir fuglakallar ætla að leiðbeina okkur við skoðunina. Gott er að hafa með sér kíki og skriffæri svo þarf að klæða sig eftir veðri því það getur verið kalt.
 
Ferðin tekur u.þ.b. 2 klst. Þátttaka ókeypis. 

11. júní, laugardagur. Fálkafell - Gamli - Hamrar

Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ásrún Ösp Jónsdóttir
Lagt er af stað við gráa skúra Norðurorku við Súluveg. Þaðan er gengið eftir vegi að Fálkafelli og svo eftir slóða að Gamla og niður að læknum þar sem endað er á tjaldsvæðinu við Hamra. Gönguhækkun er í byrjun ferðar og svo aflíðandi ganga eftir það. Gönguferð sem ætti að henta flestum. Gott útsýni er inn og út Eyjafjörð á leiðinni, fjölbreytt landslag þar sem bæði er farið yfir mýrar og í gegnum skóg. Fararstjóri verður með bíl við Hamra og getur ferjað fólk til að sækja bíla á upphafsstað.
Heildarvegalengd er 5,5 km. Gönguhækkun 190 m.
Ferðin tekur u.þ.b. 4-5 klst.
Þátttaka ókeypis.
ATH. Áætlaður tími ferða er aðeins viðmið og fer eftir hópnum og aðstæðum hverju sinni.

25. júní, laugardagur. Haus. Sólstöðuferð

Brottför kl. 21 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23. 
Fararstjórn: Herdís Zophoníasdóttir
Ekið er inn Eyjafjarðarsveit að austnaverðu við Öngulsstaði þar er beygt til vinstri og ekið eftir malarvegi aðumarbústað sem nefnist Sel, lagt á bílastæði sem þar er og gangan hefst.  Gengið er eftir stikaðri leið af vörðunni á Haus sem er fyrsti áfanginn þegar gengið er á Staðarbyggðarfjall. Þaðan er frábært útsýni og gaman að njóta með börnum á fallegu sumarkvöldi. 
Vegalengd 3,3 km. Gönguhækkun 270 m. 
Ferðin tekur 2 - 3 klst. Þátttaka ókeypis. 

2. júlí, laugardagur. Nýphólstjörn. Veiðiferð Myndir úr veiðiferð barnanna 2021

Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Fjóla Kristín Helgadóttir
Bílum er lagt við bæinn Stóru-Tjarnir í Þingeyjarsveit. Þaðan er gengið eftir slóða upp að vatni sem er á milli hæða í landinu. Þægileg ganga upp hæðina en aflíðandi hækkun á leiðinni að vatninu. Hægt er að veiða í vatninu svo gott er að hafa veiðistangir með og annað sem til þarf og tilheyrir veiði, s.s. flugnanet og eitthvað undir veiðina. 
Heildarvegalengd 2,9 km. Gönguhækkun 250 m. 
Ferðin tekur u.þ.b. 4 - 5 klst. Þátttaka ókeypis.

10. júlí, sunnudagur. Söguganga. Bernsku- og blómaganga - þessari ferð var aflýst

Brottför kl. 13 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Erla Sigurðardóttir og Ingvar Teitsson
Bernsku- og blómaganga frá Vaði að Fossseli þar sem Helga Sörensdóttir bjó frá því 5 mánaða aldri þar til hún varð
11 ára. Helga er fulltrúi alþýðubarna á árum áður. Skemmtileg og áhugaverð frásögn af bernsku hennar og uppvexti.
Blómaskoðun og algengar nytjajurtir kynntar.
Áætlaður göngutími 2 klst. ATH. Áætlaður tími ferða er aðeins viðmið og fer eftir hópnum og aðstæðum hverju sinni.
Þátttaka ókeypis.

Þeim sem hentar betur að mæta beint á upphafsstað göngunnar, Ystafell, lagt af stað þaðan kl. 13.45.
Getið þess við skráningu ef þið ætlið að mæta þar.

16. júlí, laugardagur. Hálshnjúkur barna- og fjölskylduferð

Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Hulda Jónsdóttir
Gengið frá bænum Efri-Vöglum í Vaglaskógi, nokkuð brattan slóða upp á Hálshnjúk. Þaðan er mjög gott útsýni í allar áttir. 
Heildarvegalengd 3 km. Gönguhækkun 400 m.
Ferðin tekur 3 - 4 klst. Þátttaka ókeypis.

ATH. Áætlaður tími ferða er aðeins viðmið og fer eftir hópnum og aðstæðum hverju sinni.

31. júlí - 1. ágúst. Helgarferð - Lambi á Glerárdal - Lambi skáli FFA

Ferðinni var frestað til 6. - 7. ágúst vegna veðurs þegar hún átti að vera.

Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Jónína Sveinbjörnsdóttir
Lagt er af stað frá bílastæðinu við uppgönguna á Súlur og gengið fram Glerárdal í skálann Lamba þar sem gist verður eina nótt.
Heildarvegalengd 22 km (11 km hvor leið). Gönguhækkun 440 m.
Komið til baka seinnipart 1. ágúst. Takmarkaður fjöldi er í þessa ferð vegna takmarkaðs gistipláss.
Frítt er í ferðina fyrir alla, ekki þarf að greiða fyrir gistinguna. Norðurorka styrkti FFA til þessa verkefnis og þökkum við þeim stuðninginn.

13. ágúst, laugardagur. Böggvisstaðadalur. Berjaferð

Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Herdís Zophoníasdóttir
Farið er frá bílstæði við Dalvíkurkirkju, þaðan er gengið inn í Böggvisstaðadal og fram að Kofa sem stendur í dalnum. Gengið er í gegnum gott berjaland og því tilvalið að hafa með sér ílát til berjatínslu á bakaleiðinni.
Heildarvegalengd 8,5 km. Gönguhækkun 270 m. í upphafi göngunnar.
Ferðin tekur 3 - 4 klst. Þátttaka ókeypis. 

ATH. Áætlaður tími ferða er aðeins viðmið og fer eftir hópnum og aðstæðum hverju sinni.