Söguganga - raðganga 2022

Söguganga um Helgu Sörensdóttur alþýðukonu í Þingeyjarsýslu

Í fótspor alþýðukonunnar Helgu Sörensdóttur. Hver var hún?

Helga Sörensdóttir var fátæk alþýðukona, fædd 1859 og dáin 1961. Helga bjó víða s.s. í Kaldakinn, Reykdælahreppi, Náttfaravíkum og Reykjahverfi í Þingeyjarsýslu. Á allri sinni ævi fór hún einungis einu sinni út fyrir þetta svæði, þá til kirkju að Laufási við Eyjafjörð.

Jón Sigurðsson frá Ystafelli skráði sögu Helgu. Hann valdi hana sem fulltrúa allra þúsundanna sem gleymast og ævikjör hennar voru dæmigerð fyrir fólk í sveitum landsins á þessum tíma. Frásögnin er táknræn og jafnframt spegilmynd af kjörum þúsunda kvenna víðsvegar um land, þó sértaklega. „Þúsundir eða tugþúsundir fátækra kvenna hafa búið við lík kjör og mætt líkum raunum. Saga Helgu ætti að geta verið baráttu- og sigursaga þeirra allra, sem deyja gleymdar“ (úr formála ævisögu Helgu Sörensdóttur).

Ferðafélag Akureyrar efnir til raðgöngu um slóðir Helgu Sörensdóttur í Kaldakinn og Reykjadal í Þingeyjarsýslu þar sem saga hennar verður rakin. Í júlí (3. og 10. júlí) verður boðið upp á tvær göngur, yfirlits- og kynningargöngu og bernsku- og blómagöngu. Í ágúst (6., 21. og 28. ágúst) verður gengið í fótspor Helgu og sagðar sögu af henni og af ábúendum í Kinninni og í Reykjadal. í einhverjum ferðunum eigum við stefnumót við heimamenn sem þekkja best til og sumir muna eftir Helgu eða sögum af henni.
Fararstjórar verða Erla Sigurðardóttir og Ingvar Teitsson. Bæði eru alin upp á þessum slóðum og þekkja þar hverja þúfu auk sagna af fólki á svæðinu.

10. júlí, sunnudagur. Fyrsta ferð - yfirlitsferð
Brottför kl. 12 á einkabílum frá FFA, Strandgötur 23, Akureyri. 
Fararstjórn: Erla Sigurðardóttir og Ingvar Teitsson
Fyrsti hluti raðgöngunnar verður yfirlits- og kynningarganga frá Ystafelli í Kaldakinn, þar sem Jón Sigurðsson, skrásetjari ævisögu Helgu Sörensdóttur bjó. Gengið verður eftir slóða á Kinnarfellið suður á móts við Fellssel þar sem Helga bjó síðustu æviárin. Síðan verður gengið eftir melum og mólendi norður háfellið svo tekur gamall vegur við. Á leiðinni er horft yfir nánast allt „sögusviðið“ og komið niður að Hólsgerði en þar bjó Helga, fyrst með foreldrum sínum og síðar sem fullorðin kona. Frá Hólsgerði er gengið suður með þjóðveginum aftur í Ystafell. Á leiðinni verður sagt frá ævi Helgu og ævisöguritaranum Jóni Sigurðssyni.
Vegalengd um 12 km. Hækkun er um 200 metrar. Ekki þarf að gera ráð fyrir að vaða læki eða bleytur.
Áætlaður göngutími 4 klst.
Verð: 2.000/3.500 kr.

Ferðin átti að vera 3. júlí en var frestað um viku vegna veðurs.

Þeim sem hentar betur að mæta beint á upphafsstað göngunnar (Ystafell II, lagt af stað þaðan kl. 12.45) er bent á að hafa samband við skrifstofu FFA varðandi greiðslu. Skrifstofan er opin virka daga kl. 14:00-17:00. Netfang: ffa@ffa.is / sími: 462 2720

 

10. júlí, sunnudagur. Barna- og fjölskylduferð.
Söguganga - bernsku og blómaferð
Brottför kl. 13 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23, Akureyri.
Fararstjórn: Erla Sigurðardóttir og Ingvar Teitsson
Bernsku- og blómaganga frá Vaði að Fossseli þar sem Helga Sörensdóttir bjó frá því 5 mánaða aldri þar til hún varð
11 ára. Helga er fulltrúi alþýðubarna á árum áður. Skemmtileg og áhugaverð frásögn af bernsku hennar og uppvexti.
Blómaskoðun og algengar nytjajurtir kynntar.
Áætlaður göngutími 2 klst.
Þátttaka ókeypis.

Þessari ferð er aflýst.

 

Í ágúst verða svo þrjár raðgöngur þar sem rakin er að miklu leyti leið Helgu í fermingarferð hennar. Þegar Helga fermdist bjó hún með foreldrum sínum í Vargsnesi í Náttfaravíkum. Hún gekk frá Vargsnesi fyrir svokallaðan Forvaða í Bjargakrók (sú leið er nú ófær nema á báti). Helga fór síðan ýmist gangandi eða ríðandi suður Kinn, gisti á Þóroddsstað. Þaðan fór hún austur yfir Skjálfandafljót að Helgastöðum í Reykjadal þar sem hún dvaldist hjá prestinum og gekk til spurninga. Frá Helgastöðum fór hún suður Reykjadal suður í Kvígindisdal og þaðan vestur yfir Fljótsheiði að Vatnsenda. Helga fermdist í Ljósavatnskirkju, foreldrar hennar sem höfðu ætlað að mæta að Ljósavatni komust ekki vegna hríðarveðurs og grjóthruns í fjörunum sunnan við Naustavík. Kinnungar lánuðu Helgu flíkur til að fermast í. 

6. ágúst, laugardagur. Raðganga 2: Bjargakrókur - Ófeigsstaðir í Kaldakinn   
Brottför kl. 09.00
á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23, Akureyri.
Fararstjórn: Erla Sigurðardóttir og Ingvar Teitsson
Ekið að bænum Björgum í Kaldakinn og norður að sjónum í Bjargakrók, þar sem gangan hefst. Heimafólk á Björgum fræðir okkur um nánasta
umhverfi og skriðurnar miklu sem féllu heim á tún á Björgum í október 2021. Síðan er gengið eftir innansveitarveginum suður Kaldakinn að
kirkjustaðnum Þóroddsstað, en þar var Helga Sörensdóttir jarðsungin. Á leiðinni rifjum við upp vist Helgu á bæjum í Útkinn, s.s. á Syðri-Skál.
Göngu dagsins lýkur á Ófeigsstöðum.
Vegalengd: 17 km, lóðrétt hækkun hverfandi lítil. Ath: Selflytja þarf bíla milli Bjarga og Ófeigsstaða.
Áætlaður göngutími 5-6 klst.
Verð: 2.000/3.500 kr.

Þeim sem hentar betur að mæta beint á upphafsstað göngunnar (neðan við Ófeigsstaði þar sem sameinast verður í bíla. Lagt af stað þaðan kl. 10:00) er bent á að hafa samband við skrifstofu FFA varðandi greiðslu. Skrifstofan er opin virka daga kl. 14:00-17:00. Netfang: ffa@ffa.is / sími: 462 2720

 

21. ágúst, sunnudagur. Raðganga 3: Ófeigsstaðir í Kaldakinn – Helgastaðir í Reykjadal
Brottför kl. 09.00 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23, Akureyri.
Fararstjórn: Erla Sigurðardóttir og Ingvar Teitsson
Ekið á einkabílum að Ófeigsstöðum í Kaldakinn. Þaðan göngum við austur yfir brúna á Skjálfandafljóti og svo suður austurbakka Fljótsins að bænum Vaði. Sunnan Vaðs göngum við upp skógi vaxna brekku að tóftunum af Fossseli en þar átti Helga Sörensdóttir heima í 11 ár. Frá Fossseli fylgjum við götuslóðum suðaustur yfir Fljótsheiði. Á þeirri leið er fallegt útsýni yfir sveitirnar austan og vestan Fljótsheiðar. Við komum austur af heiðinni rétt norðan Helgastaða í Reykjadal. Hér gekk Helga til spurninga og ganga dagsins endar við heimreiðina í Helgastaði.
Vegalengd: 12,5 km, lóðrétt hækkun 170 m.  Ath: Selflytja þarf bíla milli Ófeigsstaða og Helgastaða.
Áætlaður göngutími 4 klst.
Verð: 2.000/3.500 kr.

Þeim sem hentar betur að mæta beint á upphafsstað göngunnar (neðan við Ófeigsstaði, lagt af stað þaðan kl. 10:00) er bent á að hafa samband við skrifstofu FFA varðandi greiðslu. Skrifstofan er opin virka daga kl. 14:00-17:00. Netfang: ffa@ffa.is / sími: 462 2720.

 

28. ágúst, sunnudagur. Raðganga 4: Helgastaðir í Reykjadal – Ljósavatn
Brottför kl. 09.00 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23, Akureyri.
Fararstjórn: Erla Sigurðardóttir og Ingvar Teitsson
Ekið á einkabílum að Helgastöðum í Reykjadal. Þaðan göngum við suður meðfram bílveginum í Reykjadal að Einarsstöðum. Þaðan fylgjum við gamla þjóðveginum suðvestur yfir Fljótsheiði að Ingjaldsstöðum. Mikið og fallegt útsýni af Fljótsheiðinni. Frá Ingjaldsstöðum göngum við að Fosshóli og skoðum m.a. ummerki um þrjár kynslóðir af brúm yfir Fljótið. Þaðan fylgjum við þjóðveginum vestur yfir Hrúteyjarkvísl og fylgjum síðan bílveginum heim að kirkjustaðnum Ljósavatni en þar var Helga Sörensdóttir fermd vorið 1875. Ath: Selflytja þarf bíla milli Helgastaða og Ljósavatns.
Vegalengd: 17,1 km, lóðrétt hækkun: 260 m. Ath: Selflytja þarf bíla milli Helgastaða og Ljósavatns.
Áætlaður göngutími 5-6 klst.
Verð: 2.000/3.500 kr.

Þeim sem hentar betur að mæta beint á upphafsstað göngunnar (að Helgastöðum, lagt af stað þaðan kl. 10:00) er bent á að hafa samband við skrifstofu FFA varðandi greiðslu. Skrifstofan er opin virka daga kl. 14:00-17:00. Netfang: ffa@ffa.is / sími: 462 2720.