- Skrifstofan
- Félagið
- Ferðir og viðburðir
- Hreyfiverkefni
- Skálar
- Myndir
Jarðfræði Bræðrafells og nágrennis ![]()
14.–16. ágúst
Brottför kl. 12 frá FFA, Strandgötu 23. Farið er með rútu í Herðubreiðarlindir og þaðan fær hópurinn skutl að uppgöngunni á Herðubreið þar sem gangan hefst, eins verður á bakaleiðinni.
Fararstjórn: Fjóla K. Helgadóttir, Hjalti Jóhannesson og Sigurveig Árnadóttir jarðfræðingur
Ódáðahraun er mikið gósenland fyrir þá sem áhuga hafa á jarðfræði, því býður FFA upp á jarðfræðiferð þar sem Kollóttadyngja og svæðið þar í kring verður skoðað. Í sunnanverðu Ódáðahrauni við Bræðrafell í Kollóttudyngju á FFA nýlegan og vel búinn 16 manna gönguskála, þar sem gist verður í tvær nætur.
Í Ódáðahrauni er vatn af skornum skammti. Vatni er safnað af þaki skálans en þó er nauðsynlegt að taka a.m.k. tvo lítra af vatni á mann meðferðis til öryggis. Svæðið sem farið er um ber merki mikilla eldsumbrota. Það státar af sérkennilegum og fallegum hraunmyndunum, auðn, litadýrð og ekki síst mikilli kyrrð og mun jarðfræðingur sem er með í för fræða okkur um það sem fyrir augu ber.
Dagskrá ferðarinnar:
1.d., föstudagur: Lagt af stað frá Akureyri kl. 12.00. Ekið sem leið liggur í Herðubreiðarlindir þar sem stoppað verður í stutta stund. Eftir það ekið áfram sem leið liggur vestur fyrir Herðubreið eftur torfærum jeppaslóða og gengið þaðan um 7.5 km í vestur að Bræðrafelli. Gengið verðum yfir Flötudyngju, sem ber nafn með rentu. Þar er að sjá margar skemmtilegar jarðmyndanir og risastóra gíga. Skálinn er í 720 m hæð og lítil sem engin hækkun.
2.d., laugardagur: Gengið á Kollóttudyngju (1.177 m) en þaðan er afar víðsýnt og Bræðrafell og ýmsar aðrar jarðmyndanir skoðaðar á bakaleiðinni. Hækkun um 500 m.
3.d., sunnudagur: Gengin sama leið til baka í átt að uppgöngunni á Herðubreið þar sem bílarnir bíða og aka ferðalöngum til Akureyrar. Áætlaður komutími til Akureyrar er kl. 16-17.
Hámarksfjöldi 12 manns.
Verð: 63.500 / 68.500 kr. Innifalið: Rúta og akstur frá Lindum að uppgöngunni á Herðubreið, gisting í tvær nætur, fararstjórn og fræðsla.
Greiða þarf staðfestingargjald vegna skráningar í þessa ferð kr. 10.000 kr. í síðasta lagi 14 dögum eftir að krafa er stofnuð í netbanka. Þessa ferð þarf síðan að greiða að fullu fyrirfram, þremur dögum fyrir brottför. Krafa verður stofnuð í netbanka.