Grasárdalshnjúkur 26. júní 2010

Ferð FFA á Grasárdalshnjúk 26. júní 2010

Að morgni laugardagsins 26. júní, lagði vaskur hópur kvenna og karla frá Ferðafélagi Akureyrar upp í gönguferð frá Reykjum í Hjaltadal. Markmið ferðarinnar var að ganga á Ytri-Grasárdalshnúk 1264m og einnig Reykjanibbu 1302m. Þessir fjallstindar eru við Grjótárdal sem er einn af hliðardölum Hjaltadals í Skagafirði.Einkum var það Grasárdalshnjúkurinn sem freistaði, því það er fjallstindurinn sem rís yfir Blönduhlíðarfjöllin og sést vel þegar farið er um Vatnskarð milli Húnavatns- og Skagafjarðarsýslna. Áætlað var að ganga fyrst uppá Grasárdalshnjúkinn og síðan eftir fjallsbrúnum að Reykjanibbu sem er fyrir botni Grjótárdals, og þaðan niður Grjótárdal að Reykjum.

Veður var ágætt skýjað en hlýtt og viðraði vel til gönguferða. Að vísu gerðist þokan ansi nærgöngul af og til og byrgði að mestu sýn ofaní hliðardali Blönduhlíðarinnar um tíma þannig að útsýn vestur yfir Skagafjörð var ekki alltaf sem best. Gangan uppá Grasárdalshnjúkinn gekk ágætlega, við gengum aðeins inn Grjótárdalinn, stikluðum yfir Ytri-Grasána og síðan upp melhrygg sunnan við hana. Þegar komið var upp mesta brattan sveigðum við suður með fjallinu og inn í Fremri-Grasárdalinn, sem er fremur skál en dalur þarna milli Grasárdalshnjúkanna. Þetta eru nú heldur mótsagnakennd örnefni, því ekki ber mikið á gróðri þarna uppi.En það er víst töluvert um fjallagrös þarna og nafngiftin ef til vill dregin af þeim. Síðan var haldið inn skálina /dalinn með hnjúkinn á hægri hönd. Það er hæg hækkun þarna inn og töluvert grýtt. Þegar komið var innundir botn á Fremri-Grasárdalnum fórum við upp bratta og lausa skriðu uppá hrygginn sem tengir Ytri-Grasárdalshnjúk við meginfjallið. Rétt er að benda á að Grasárdalshnjúkurinn Ytri, er eiginlega tveir toppar og er gengið á þann innri og hærri, sem er nær meginfjallinu. Það tók á að príla upp skriðuna en allir komust heilir upp. Síðan var lagt á tindinn, leiðin þangað virtist ekki árennileg en reyndist auðveldari þegar á reyndi. Þegar upp var komið var tekin drjúg stund í að horfa til allra átta og reyna að finna nöfn á alla þá fjallstoppa mergð sem við blasti.Að því loknu var brölt niður á hrygginn aftur og tekin góð pása.

En svo hófst gangan langa að Reykjanibbunni. Leiðin eftir fjallsbrúnunum Grjótárdals leit alls ekki illa út, svona úr hæfilegri fjarlægð, að vísu ansi löng. En ekki var allt sem sýndist, því fyrir utan það að vera löng, þá var hún andstyggilega grýtt. Það hafði greinilega algerlega gleymst að raða grjótinu þarna uppi. Þar að auki læddist þokan í Blönduhlíðar dölunum og skyggði á útsýnið til vesturs. En með seiglunni sem einkenndi þennan hóp hafðist þetta að lokum og við gengum síðasta spölinn fyrir dalsbotninn í ágætu skyggni. Fjallið fyrir botni Grjótárdals er 1298m, aðeins 4m lægra en Reykjanibban (1302m). Þaðan er gott útsýni yfir Tröllaskagann, allt austur til fjallanna við Glerárdal. Milli þessa nafnlausa fjalls og Reykjanibbunnar er lægð og fært þaðan niður í Grjótárdal og þar ætluðum við niður. Annars er Grjótárdalurinn að mestu hömrum girtur. Hluti hópsins dreif sig niður og sleppti Reykjanibbunni en hinir röltu upp, þetta er dálítil hækkun en ekki mjög brött. Það er mikið útsýni af Reykjanibbunni, einkum yfir botn Hjaltadals og fjallanna við Hörgárdalinn. Lengst í fjarska sást t.d. Strýta og fleiri fjöll við Glerárdal. Ekki var stoppað lengi á toppnum, orðið áliðið og við áttum eftir að ganga niður allan Grjótárdalinn. Það var mikill snjór í dalbotninum og fremur mjúkur en brekkan ekki nógu brött til hraða för okkar niður. Neðar sáum við grýtta jökul urð þar sem snjónum sleppti og þar undan komu efstu lækir Grjótárinnar. Við þurftum að vera hinum megin í dalnum til að þurfa ekki að vaða ána neðar svo ákveðið var að fara yfir lækina strax neðan við urðina.

Við höfðum tekið eftir einkennilegri lægð, eins og ummerkjum eftir jökullón efst í dalbotninum. Daginn áður hafði Hjaltadalsáin verið kolmórauð og full af aur, nokkuð sem var ekki vanalegt þegar komið var fram á sumar. En þarna undir urðinni sáum við skýringuna. Það hafði myndast stór krapablá eða tjörn uppi á jöklinum. Síðan hafði vatnið fundið sér farveg niður í urðina og sprungið fram með feikna látum. Það hafði myndast þó nokkur íshellir og lágu jakastykki í árfarveginum fyrir neðan. Klappirnar þarna í kring voru hreinlega þvegnar af vatnsflauminum sem hefur ruðst fram. Þetta var ótrúleg sjón og brotsárið eins og skólabókardæmi um grjótjökla. Það hefði verið gaman að stoppa lengur við þetta náttúrufyrirbæri, en hluti hópsins var komin aðeins á undan. Það var komin heimþrá í liðið enda gangan orðin töluvert lengri en áætlað var. Félagar okkar biðu eftir okkur nokkru neðar, alltaf betra að halda hópinn. Grjótárdalurinn ber nafn með rentu, hann er grýttur og fremur seinfarinn. En það var gengið rösklega og mikið urðum við fegin þegar við komum fram úr dalsmynninu og sáum bílana okkar standa á áreyrunum við Biskupalaugina. Ferðin tók rétt rúmlega 12 tíma og við gengum um 30 km, eða eins og ein konan sagði: Við höfum gengið meira en hálfan Ragga! (Þ.e. þetta var lengra en hálfur Glerárdalshringur.) Þetta var töluvert erfiðari ferð en lagt var upp með, en þetta var einstaklega jafn og duglegur hópur. Það er í raun allveg nóg að ganga ,,bara‘‘ uppá Grasárdalshnjúkinn , ég mæli ekki með göngu eftir fjallsbrúnunum eins og við gerðum. Það eru fleiri leiðir færar uppá hnjúkinn, en ég held að þessi sé styst og einföldust. Trúlega er auðveldast að ganga á Reykjanibbuna upp úr Suðurárdalnum, en það er sennilega lengra en að fara inn Grjótárdalinn. Að lokum: Kæru ferðafélagar, hafið þökk fyrir skemmtilega og lærdómsríka ferð.

Una Þórey Sigurðardóttir

Myndir úr ferðinni má sjá hér