Páskaferð 2011

Páskaferð 2011, þegar FFA bjargaði páskunum fyrir gönguskíðafólk sunnan heiða, sem var í þörf fyrir að flýja úr útsynningnum syðra.

10 farþegar og Ingibjörg Eiríksdóttir, annar fararstjóri ferðarinnar, mættu glaðbeittir á skrifstofu FFA til Anke Mariu Steinke, hins fararstjórans, kl. 13 þann 22. apríl, föstudaginn langa. Þá var hitastigið á Akureyri 15 gráður og sólskin.

Ekið var inn Eyjafjörð að Vatnahjalla þar sem bílar voru skildir eftir um þrjúleytið og rölt af stað með skíðin á bakinu upp mesta brattann. Síðan tók við 11 km. skíðaganga í Bergland í frábæru færi og góðu veðri. Komum þangað um áttaleytið og þá hófst snjóbræðsla og fjallaeldamennska og síðan var farið í koju. Um morguninn voru nokkrar umræður um hitastigið um nóttina. Þeir, sem reyndu að sofa í efri kojunum höfðu verið í gufubaði alla nóttina og því lítið sofið fyrir hitasvækju, en þeir í “neðra” vöknuðu með “frosið” nef.

Laugardagurinn 23. apríl heilsaði okkur bjartur og fagur, heiðríkja og sáum vel til fjalla, m.a. til Hofsjökuls. Haldið var af stað frá Berglandi kl. 10 og komið var í Laugafell eftir 5 tíma frábæra skíðaferð, sem var um 20 km. löng.

Þá tók við dásamleg dvöl í heitu lauginni, margir náðu að dorma þar í 2 – 3 tíma.

Við vöknuðum upp við páskahret á sunnudagsmorgun og höfðum við því góða ástæðu til að taka hvíldardag. Bylurinn var það dimmur á köflum að talað var um að það þyrfti gps-tæki til að rata í laugina, en nokkrir fóru fleiri en eina ferð. Um miðjan daginn var spiluð félagsvist á 2 borðum og kom þá í ljós mikið keppnisskap.

Íbí harkaði sér út seinnipartinn með lærin 3 á grillið, sem Marrit hafði dregið á púlkunni sinni síðustu 2 daga og á páskadagskvöld var þvílík dýrðarmáltíð fram borin. Ýmislegt hafði komið upp úr pokanum hjá Anke Mariu, t.d. heimaþurrkaðir sveppir, krydd og bláberjasósa. Einnig drógu ýmsir upp úr pússi sínu alls konar páskanammi, t.d. páskahéra og egg. Eftir matinn þurfti að leika málshættina, sem fólk fékk og gekk það nú misjafnlega vel, bæði að leika og skilja hvað fólk var að fara.

Þar sem morgundagurinn beið okkar með 32 km. skíðagöngu fórum við nú ekki mjög seint að sofa.

Mánudagur 25. apríl. Anke Maria var nákvæm á “ræs-tímanum”, kl. 06:00 tilkynnti hún að nú væri tími til að fara að týna á sig spjarirnar. Vatnadísin okkar (Holllendingurinn fljótandi) náði einni laugarferð í viðbót, þeirri fimmtu í þessari ferð. Búið var að borða, pakka og skúra út kl. 08:00 og lagt af stað í smámuggu, en einhver hafði á orði að “hann væri alveg að fara að rífa af sér”. Viti menn; ekki leið á löngu þar til sól skein í heiði og engin vindur var svo fólk tók til við að fækka fötum, en einhver benti á að það væri dökkur bakki fyrir aftan okkur svo við ættum nú ekki að drolla of mikið. Við hittum 2 jeppamenn, þegar við áttum eftir um fjórðung leiðar í Bergland. Þeir ætluðu að skreppa í Laugafell og var þá veðrið ennþá þokkalegt. Við komum í Bergland kl.14 og ákveðið var að stoppa vel þar, borða og hvíla okkur fyrir síðasta áfangann. Þegar við komum út uppúr kl. 15 var farið að hvessa ansi mikið og skyggni eiginlega ekkert, en fararstjórar tóku málin föstum tökum og stýrðu hópnum eftir tækjum sínum og pössuðu upp á að fólk héldi hópinn. Fengu einn til að fara á undan og síðan var kallað “aðeins til hægri – stopp – meira til vinstri”. Allt gekk þetta nú upp, en þegar brattinn niður hófst hvessti mjög mikið og fólk byrjaði að detta á skíðunum svo ákveðið var að fara af skíðunum og ganga restina. Bragi var sá eini sem hélt áfram á skíðunum og héldu því eðlilega allir að þetta væri af eintómri þrjósku, en hið rétta var að hann var frosinn við skíðin og náði að skíða eftir snjólænum alla leið að bílnum, en þar þurfti að hella heitu vatni á bindinguna svo hann þyrfti ekki að keyra með skíðin á fótunum. Við vorum nú nokkuð glöð að sjá bílana aftur um sjöleytið og þá heyrði Anke Maria í formanni FFA, sem sagði henni að jeppamennirnir hefðu haft samband við sig og lýst áhyggjum sínum yfir þessum gönguskíðahóp því þeir höfðu snúið strax við og veðrið versnaði og fundu okkur ekki á bakaleiðinni. Sem betur fer hélt hann ró sinni og var ekki búinn að kalla út björgunarsveitir.

Viljum við þakka Anke Mariu og Íbí fyrir frábæra fararstjórn og öllum samferðamönnum fyrir skemmtilega samveru.

7 manns úr hópnum óku strax til Reykjavíkur eftir að hafa borðað með fararstjórunum á Bautanum og var baráttan við þjóðveginn eiginlega erfiðasti kafli ferðarinnar og vorum við komin í koju um kl. 3:30.

Ferðasöguna ritaði Jónína Pálsdóttir með dyggri aðstoð frá Marrit, Nancy og Braga, borðandi súkkulaðiköku, sem bökuð var eftir uppskrift, sem fannst í Laugafelli.

Myndir úr ferðinni má sjá hér

 

Ritað í Þverási 1. maí 2011 að aflokinni skíðakröfugöngu í Bláfjöllum.