Skíðaferð, Krafla-Húsavík

Krafla-Þeistareykir- Húsavík

Lagt var af stað frá Strandgötu 23, skrifstofu FFA með bíl frá Sérleyfisbílum Akureyrar um kl  8 laugardagsmorguninn 11. mars 2006.
Sunnan strekkingur var og hiti um 4-5 stig. Ekið var sem leið liggur til Mývatnssveitar og var vegurinn auður. Þegar komið var í Mývatnssveit að Kálfaströnd fór bíllinn að hendast til og frá vegna hvassviðris. Þegar komið var að Kröflu var þar strekkings vindur en sem betur fer að hásunnan, svo vindurinn var beint í bakið. Ekki þurfti að hafa mikið fyrir að ýta sér áfram á skíðunum, frekar var vandamálið að stoppa sig af þegar vindurinn ýtti manni áfram af fullum krafti. Ekki voru allir jafn góðir á bremsunum svo það endaði með að fararstjórinn var settur í tog til að hægja ferðina hjá þeim sem var með lélegustu bremsuna.  Nægur snjór var og gekk ferðin að óskum og áfallalaust þótt í sumum hviðunum væri það hvasst að snjórinn rifi upp undan skíðunum svo það myndaðist drífa undan þeim. Veðrið lægði eftir hádegi þótt kólgubakkarnir væru bæði í suðri og norðri. Ákveðið var að skoða Litla-Víti þótt það lengdi ferðina um 6-7 km.
Ekki var vitað nákvæmlega hvar Litla-Víti væri  en eftir að hafa fengið staðsetningarpunkt komumst við að því að við vorum á réttri leið (höfðum séð til ferða nokkurra bíla framundan).
Frá Litla-Víti er farið beint til vesturs til Þeistareykja.  Þegar skammt var eftir sást kólgubakkinn nálgast  og hröðuðum við för. Rétt þegar við vorum að koma í gilið fyrir ofan Þeistareyki skall á bylur en þegar niður í gilið kom var komið logn svo þessi bylur stóð ekki nema í fimm mínútur.  
Eyðibýlið Þeistareykir tilheyrir Aðaldalshreppi í Suður-Þingeyjarsýslu. Það er u.þ.b. 10 km suðaustan Sæluhúsamúla á Reykjaheiði. Það er grösugt í kringum bæjarrústirnar, þótt þær séu í 344 m hæð yfir sjó. Nærri 19 km leið var til kirkju að Grenjaðarstað fyrir ábúendur þar til bærinn fór endanlega í eyði 1874.
Nú stendur þar ágætis skáli leitarmanna. Þarna er öflugt háhitasvæði, sem fyrirhugað er að virkja í framtíðinni. Í gamla daga var þar talsvert unnið af brennisteini, sem var hreinsaður á Húsavík og fluttur til Kaupmannahafnar. Í skálanum eru má lesa um sagnir frá fyrri tíð.
Ein sagnir segja frá heimsókn 12 hvítabjarna, sem drápu allt heimafólkið. Bóndasonurinn var að heiman, þegar þessi atburður varð. Hann kom að brotnum bænum og fann bara handlegg og brjóst af móður sinni. Hann elti bjarndýrin uppi og drap þau öll. Í annarri sögu er talað um draug, mórauðan, afturgenginn hund, sem var hin mesta ófreskja
Þeistareykjabunga (564m) lætur tiltölulega lítið yfir sér, enda hallalítil. Gígur hennar er 500 - 600 m langur og 50 - 60 m breiður, dýpstur 40 m. Mikil hraun runnu þaðan og frá Stóra-Víti norður um Kelduhverfi. Stóra- og Litla-Víti eru sunnan Þeistareykjabungu.
Sumarið 2002 voru hafnar tilraunaboranir á háhitasvæðinu að Þeistareykjum og árið 2005 var samþykkt að stefna að nýtingu háhitasvæðanna þar og í Öxarfirði til raforkuframleiðslu, fyrir álver við Húsavík.
En víkjum nú aftur að ferðalaginu , spáð hafði verið norðan stórhríð á sunnudaginn og var búið að gera ráð fyrir að breyta þyrfti ferðaáætlun,  fara niður á Kísilveg eða jafnvel snúa við.  Þegar litið var út á sunnudagsmorguninn blasti við ótrúleg sjón: reykurinn liðaðist beint upp í loftið himinninn var heiður og tær og máninn fullur í vestrinu, rauðleitur og reyndi að  keppa við dagrenninguna. Eftir góðan svefn í þessu frábæra húsi sem er alltaf hlýtt og notalegt var lagt af stað eftir morgunmat og þrif.  Fyrstu þrjá km. þurfti að ganga þar sem snjólaust var og var það í eina skiptið sem við þurftum að taka af okkur skíðin. Veðrið var alveg dásamlegt, kyrrðin og tærleikinn í náttúrunni ólýsanleg  í þessu mikilfenglega umhverfi. Ég held að þetta verði einn af þeim dögum sem maður gleymir ekki. Stefnan var tekin á Sæluhúsamúla við Reykjaheiði. Tvö misgengi urðu á leið okkar og hittum við á færa niðurgöngu í bæði skiptin.  Um hádegi var komið að Sæluhúsamúla og matast við Veigubúð.  Eftir góða hvíld var lagt á Reykjaheiðina, sem er hallalítil, þar til komið er niður að Höskuldsvatni.
Nú sáust í fjarska snjótroðararnir uppi á Grjóthálsi þar sem ferðin átti að enda. Gaman var að njóta þess að vera til og renna sér yfir vatnið. Eftir kaffipásu var síðasti áfanginn tekinn og var drýgri en við áttum von á. Klukkan var á mínútunni fjögur þegar við komum á áfangastað eins og áformað hafði verið. Engin rúta var samt komin en eftir eitt símtal vissum við að hún kæmi von bráðar. Þessi ferð var tæpir 60 km og ég þori að fullyrða að hún verður öllum sem þátt tóku minnisstæð en það hefðu gjarnan mátt vera fleiri sem nutu.  

Frímann Guðmundsson

Myndir úr ferðinni má sjá hér