Gönguferð FFA á Hestskarðshnjúk og Hestfjall

Laugardaginn 10. ágúst klukkan átta lagði lítill en fjallhress hópur göngufólks af stað frá höfuðstöðvum FFA.  Haldið var til Siglufjarðar og það skyldi haldið  í göngu  umhverfis Nesdal milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar. Gönguáætlunin var á þessa leið: Gönguferð umhverfis Nesdal milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar. Gengið frá munna Héðinsfjarðargangnanna og upp í Hestskarð og þaðan norður og upp á Hestskarðshnjúk (Syðri Staðarhólshnjúk). Síðan gengið austur af Hestskarðshnjúk og eftir fjallsbrúnum allt norður á ystu nöf Hestfjalls.  Af Hestfjalli  er farið niður og yfir Nesdal, upp á Nesnúp, (Siglunesmúla) og  þaðan suður  eftir fjallinu og niður í Kálfsskarð, Kálfsdal og Staðarhólsströnd aftur að bílum.  Ef þetta reyndist of mikil ganga eða veður óhagstætt, var sá möguleiki fyrir hendi að sleppa Siglunesmúla en ganga í þess stað inn Nesdal og upp í Kálfsskarð. Ferðin var ekki fyrir óvana eða lofthrædda.

Veður var gott  þegar við lögðum af stað en veðurspáin var ekkert sérstök , það átti að snúast til norðanáttar þegar líða tæki á daginn. Í Ólafsfirði og Héðinsfirði var fremur þungskýjað en fjallabjart og við því vongóð með daginn. En þegar til Siglufjarðar kom blasti við okkur þoka í fjöllum og ekki laust við súld í lofti. Ekki leist okkur á blikuna en þar sem veðrið virtist betra í Héðinsfirðinum létum við slag standa og héldum af stað, það mátti þá alltaf snúa við eða stytta ferðina. Gangan upp í Hestskarð gekk vel, töluverður snjór var í Hestskarðsskálinni og í skarðsbrekkunni  en ágætt göngufæri.  Við stóðum um stund og rifjuðum upp söguna af ljósmóðurinni (Jakobínu Jensdóttur Stær) sem fór yfir skarðið um hávetur í mikilli snjóflóðahættu og lagði líf sitt í hættu til að hjálpa  konu í barnsnauð í Héðinsfirði.  Nokkuð bratt er úr Hestskarði og upp á Hestskarðshnjúk og ekki mjög árennilegt við fyrstu sýn. Það þarf að klöngrast milli og fyrir klettahausa en fyrir fjallvant fólk og ekki lofthrætt er þetta vel fært.  En þetta hafðist allt og fyrr en varði stóðum við við vörðuna á Hestskarðshnjúknum. Þar var kafþoka og ekkert útsýni  þannig að við hröðuðum okkar niður af hátindinum. Von bráðar komum við niður úr þokunni og höfðum gott útsýni í allar áttir nema vestur í átt að Siglufirði. Héðinsfjörður og Nesdalur lágu fyrir fótum okkar og við sáum leiðina framundan, háhrygg Hestsfjalls allt norður á enda fjallsins.

Þetta er mögnuð gönguleið eftir mjóum fjallshrygg , sumstaðar ganga berggangar þvert á leiðina og margskonar klettamyndanir og drangar gera leiðina síbreytilega.  Á aðra hönd er grænn og hlýlegur Nesdalurinn þar sem Reyðaráin liðast í ótal bugðum og lykkjum.  Héðinsfjarðar megin er snarbrött og giljum skorin hlíð,  safírblár fjörðurinn langt fyrir neðan.  Þegar utar kemur eru hlíðarnar beggja megin enn brattari og hengiflug sjávarmegin. Það kom okkur á óvart hversu mikill gróður er þarna á fjallinu, víða eru gróðurtorfur með krækiberjalyngi og víði. Á nokkrum stöðum sá ég blágresi og hvönn. Það var líka greinilegt að sauðfé sækir þarna upp því kindagötur lágu eftir endilöngu fjallinu. Þrátt fyrir brattar hlíðar má á örfáum stöðum teljast fært yfir Hestfjallið.  Einbúastígur, Góðagjá og Pútuskarð eru lægðir eða smá skörð sem liggja úr botni Nesdals. Þessar leiðir fór fólk milli Sigluness og Héðinsfjarðar.

Okkur sóttist gangan vel út fjallið, útsýnið yfir Héðinsfjörðinn var magnað og við ræddum um harða lífsbaráttu fólksins sem bjó þar forðum. Það er erfitt fyrir nútíma fólk aðsetja sig í þau spor. Hesturinn er hæstur  yst og síðasti spölurinn varð ansi langur ekki síst vegna þokunnar sem allt í einu helltist yfir. En við vorum ákveðin að fara út á ystu nöf og létum þokuna ekki buga okkur.  Það var alltaf möguleiki á að þokan gisnaði því alltaf glórði í sólina fyrir ofan.  Loks komumst við ekki lengra, framundan var hengiflug niður í sjó, klettar og djúpar gjár.  Þokuloftið gerði þetta enn magnaðra, öðru hvoru svifaði þokan frá og við sáum niður á Landsenda langt fyrir neðan og eyðibýlið Reyðará aðeins vestar. Við tókum góða pásu og gengum svo nokkurn spöl til baka sömu leið og dembdum okkur niður í litla skál, Miðskál. Þaðan er bratt en vel fært niður í Nesdal. Við vorum farin að lýjast og það hvarflaði ekki að okkur að fara upp á Siglunesmúlann. Það fjall yrði efni í aðra gönguferð. Eins og fyrr sagði er Nesdalurinn vel gróinn og fallegur, þær örfáu kindur sem við sáum lifðu sældarlífi. Við gengum fram dalinn austan megin, þar er stikuð leið og þokkalegar götur með ánni inn að Kálfskarði. Mikið er af berjum í Nesdal,  krækiberjum og aðalbláberjum sem voru nánast þroskuð. Það voru því nokkrar handfyllurnar sem hurfu ofaní maga okkar á leiðinni. Við fylgdum stikuðu leiðinni allar götur upp í Kálfskarð,  það er heldur lengri en þægilegri leið en að fara beint af augum upp í skarðið. Það er öllum fært yfir Kálfskarðið, hestfær leið og greiðfær. Þokunni hafði heldur létt en hékk þó enn niður í hlíðar fjallanna við Kálfsskarðið,  Hestskarðshnjúks, Staðarhólshnjúks og Siglunesmúla. Von bráðar stóðum við á brún Kálfsdals og sáum yfir vatnið og dalinn fyrir neðan. Gangan niður dalinn gekk vel, himbrimi synti á vatninu í kvöldkyrrðinni og gladdi augu okkar. Brátt komum við á neðri brún Kálfsdals og horfðum niður Kambalágarnar á heiðgulann Selvíkurvitann. Handan fjarðarins  sást vegurinn út í Stákagöng, enn var þoka á Siglufjarðarfjöllum.

Það vakti athygli okkar að ekkert vatn rennur úr Kálfsvatni en töluvert neðar,  í brekkunni  ofan við vitann,  kemur allt í einu lítill lækur og skoppar hjalandi niður hlíðina. Mikill og fallegur gróður prýðir brekkurnar, burknastóð, blágresi og berjalyng, svo fátt eitt sé talið. Frá vitanum  gengum við sem leið lá inn Staðarhólsströnd, fylgdum stikunum og ösluðum slóð um forarblautar mýrar, þvílík gönguleið! (Þess ber að geta að undirrituð gekk Staðarhólsströndina tveim dögum síðar og komst að því að mun betri og þurrari götur eru ofar í hlíðinni og mæli ég eindregið með þeirri leið.)

Það var þreytt en ánægt göngufólk sem sem tók af sér bakpokana við leiðarlok. Gönguleiðin  reyndist vera um  23 km og ferðin tók 11 tíma en var hverrar mínútu og hvers svitadropa virði. Göngufélögum mínum, Arnfríði, Frímanni, Helgu, Jónínu og Rúnari, þakka ég samfylgdina.

Una þórey Sigurðardóttir