Ferðaáætlun Ferðafélags Akureyrar 2022

Ferðaáætlun Ferðafélags Akureyrar gildir fyrir eitt ár í senn. Allir eru velkomnir í ferðir félagsins hvort sem þeir eru félagar eða ekki. Börn og unglingar eru einnig velkomnir í fylgd með fullorðnum og þurfa foreldrar að meta hvort þeir treysta þeim í ferðirnar.  Sérstakar barna- og fjölskylduferðir eru sjö talsins, frítt er í þær ferðir.

Greiðsluskilmálar.

Ef afpanta þarf ferð skal senda póst á netfangið ffa@ffa.is, ekki er nóg að hringja vegna afpöntunar.

Ferðafélag Akureyrar áskilur sér rétt til að leiðrétta villur, hætta við ferð, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka. Ef félagið fellir niður ferð fæst staðfestingargjald eða ferð endurgreidd.

Áætlaður tími ferða er aðeins viðmið og fer eftir hópnum og aðstæðum hverju sinni. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð. Ferðafélag Akureyrar tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra og hvetur fólk til að kynna sér eigin heimilistryggingar eða kaupa ferða- og slysatryggingu.

Í ferðum Ferðafélags Akureyrar þar sem sameinast er í bíla taka allir þátt í kostnaði með því að greiða bílstjóra hvers bíls fyrir sig.

Þátttakendur í ferðum FFA eru minntir á að virða gildandi sóttvarnareglur á hverjum tíma, gæta hreinlætis, hafa handspritt meðferðis, virða fjarlægðarmörk og taka tillit til ferðafélaga.

Veldu mánuð: Janúar Febrúar Mars Apríl Maí Júní Júlí Ágúst September Október Nóvember Desember

 

Janúar

Nýársganga  
1. janúar, laugardagur

Brottför kl. 13 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Grétar Grímsson
Allir velkomnir út í óvissuna til að fagna nýju ári.
Þátttaka ókeypis.

Febrúar

Ferðakynning
3. febrúar, fimmtudagur

Mæting: Kl. 20 í Verkmenntaskólanum á Akureyri.
Ferðir félagsins kynntar í máli og myndum. Gestafyrirlestur. Kynning á útvistarvörum frá fyrirtækjum í bænum. Aðgangur ókeypis.

Bakkar Eyjafjarðarár. Ferð fyrir alla á gönguskíðum skidi
5. febrúar, laugardagur

Brottför kl. 11 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ingvar Teitsson
Gangan hefst við Leiruveginn að austan. Létt og þægileg gönguleið fyrir alla sem ekki langar í bröttu brekkurnar. Gönguhækkun lítil.
Þátttaka ókeypis.
Nánar um ferðina og skráning hér.

Þorvaldsdalur. Gönguskíðaferð  skidiskidi 
12. febrúar, laugardagur

Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Fjóla Kristín Helgadóttir
Ekið að Stærri-Árskógi. Gengið á gönguskíðum fram og til baka að skálanum Derri í vestanverðum Þorvaldsdal. Vegalengd 18 km. Gönguhækkun lítil.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Nánar um ferðina og skráning hér.

Baugasel. Gönguskíðaferð  skidiskidi 
19. febrúar, laugardagur

Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Anke Maria Steinke.
Gangan hefst við Bug í Hörgárdal. Fremur létt og þægileg leið fram að eyðibýlinu Baugaseli í dalnum. Gil og rústir skoðuð á leiðinni. Vegalengd alls 12 km. Gönguhækkun 80 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Nánar um ferðina og skráning hér.

Skíðastaðir - Þelamörk. Gönguskíðaferð skidiskidi
26. febrúar, laugardagur

Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Frímann Guðmundsson
Gengið frá Skíðastöðum út hlíðina á Sjónarhól. Þægilegt rennsli niður að Þelamerkurskóla. Farið í heita pottinn ef vill (ekki innifalið). Ferð við flestra hæfi. Vegalengd 10 km. Gönguhækkun 160 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Nánar um ferðina og skráning hér.

 

Mars

 Skíðadalur. Gönguskíðaferð skidiskidi
 5. mars, laugardagur

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Frímann Guðmundsson
Ekið að bænum Þverá í Skíðadal og gengið þaðan inn að Sveinsstöðum með viðkomu í Stekkjarhúsum eða eftir því sem færð leyfir. Dalurinn er frábært skíðasvæði og mjög fallegur í vetrarbúningi. Vegalengd alls 17 km. Gönguhækkun 220 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Nánar um ferðina og skráning hér.

 Kristnes - Sigurðargil. Gönguskíðaferð skidiskidi
 12. mars, laugardagur

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ingvar Teitsson
Gengið er upp norðan við skógræktargirðinguna í Kristnesi og stefnt upp að Stóruborg. Greið leið norður á Stórhæð þar sem útsýni er gott. Þaðan hallar svo niður að Sigurðargili þar sem bílarnir bíða. Vegalengd um 9 km og hækkun um 440 m. Selflytja þarf bíla milli Kristness og Sigurðargils.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Nánar um ferðina og skráning hér.

 Hrossadalur - Vaðlaheiði. Gönguskíðaferð skidiskidi
 19. mars, laugardagur

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Valur Magnússon og Kristín Björnsdóttir.
Gengið er frá bílastæði efst á Víkurskarði og fram dalinn að austan og suður á Vaðlaheiðina. Þaðan er haldið áfram að Þórisstaðaskarði og að upptökum Hamragils. Þá er sveigt til norðurs að Víkurskarði. Á móts við Geldingsána taka skíðin rennslið niður vesturhlíðina. Vegalengd um 15 km. Gönguhækkun um 200 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Nánar um ferðina og skráning hér.

 Galmaströnd. Gönguskíðaferð skidiskidi 
 26. mars, laugardagur

Brottför kl. 8 á einkabílum frá skrifstofu FFA, Strandgötu 23.  
Fararstjórn: Frímann Guðmundsson
Gengið frá Syðri-Reistará og niður undir sjó. Síðan norður til Hjalteyrar og skoðað hvaðan við fáum heita vatnið. Svo út Arnarnesnafir og aftur að Reistará um Bjarnarhól. Vegalengd um 12 km. Gönguhækkun lítil.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Nánar um ferðina og skráning hér.

 

Apríl

 Engidalur - Einbúi. Gönguskíðaferð  skidiskidi
 2. apríl, laugardagur

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ingvar Teitsson
Ekið inn Bárðardal að Engidal eða eftir því sem færð leyfir. Þar er stigið á skíðin og gengið meðfram Kálfborgarárvatni og út heiðar og ása þar til haldið er niður að býlinu Einbúa þar sem farið er í bílana (bíll ferjaður að Einbúa). Vegalengd 21 km. Göngulækkun 200 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.

 Þeistareykjabunga. Gönguskíðaferð  skidiskidiskidi
 9. apríl, laugardagur

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Sigurgeir Sigurðsson.
Ekið að svæðinu við Þeistareykjaskálann þar sem gangan hefst. Þeistareykjabunga er ein stærsta dyngja landsins og eru upptök hennar í Stóravíti. Gengið verður upp í Bóndhólsskarð og að Litlavíti sem er mjög sérstakt og áfram að Stóravíti. Síðan er gengið á hæsta punkt Þeistareykjabungu, þaðan sem víðáttumikil hraun hafa runnið og víðsýnt er um svæðið. Vegalengd um 15 km. Gönguhækkun 200 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn. 
Nánar um ferðina og skráning hér.

 Glerárdalur - Lambi. Gönguskíðaferð  skidiskidiskidi
 23. apríl, laugardagur

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Bernard Gerritsma og Bóthildur Sveinsdóttir
Gangan hefst á bílastæði við Súluveg. Gengið er inn að Lamba, skála FFA inni á Glerárdal og sama leið farin til baka. Á leiðinni njóta þátttakendur dásemda fjallahringsins á útivistarsvæði Akureyringa. Vegalengd alls 22 km. Gönguhækkun 440 m.
Þátttaka ókeypis.
Nánar um ferðina og skráning hér.

 Hólafjall í Eyjafirði fram
 30. apríl, laugardagur

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Þuríður Helga Kristjánsdóttir
Ekið á einkabílum að Þormóðsstöðum í Sölvadal. Þaðan er gengið upp hlíðina og á hrygg Hólafjalls þar sem sjá má ummerki um gamlan akveg inn á hálendið. Gott útsýni er yfir byggðina og út Eyjafjörðinn. Gengið er til baka að Þormóðsstöðum. Vegalengd alls 8 km. Gönguhækkun 580 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn. 

 

Maí

Súlur 1143 m. Göngu- eða skíðaferð   skidiskidiskidi 
1. maí, sunnudagur

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Viðar Örn Sigmarsson
Árleg ferð FFA á bæjarfjall Akureyrar. Gengið er eftir merktri gönguleið á fjallið. Af Súlum er afar fallegt útsýni. Göngubúnaður miðast við færi og aðstæður. Vegalengd alls 13 km. Gönguhækkun 880 m.
Þátttaka ókeypis.
Nánar um ferðina og skráning hér

Gerðahnjúkur - Skessuhryggur - Blámannshattur
7. maí, laugardagur

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Hermann Gunnar Jónsson
Ekið að bænum Grund í Höfðahverfi þar sem fjallgangan hefst. Gengið er upp Grundarhnjúk, þaðan á Gerðahnjúk og út á Skessuhrygg þar sem er feikimikið útsýni. Þaðan er stutt á Blámannshatt. Af hábungu fjallsins (1215 m) er stefnan tekin á Benediktskamb og þaðan að upphafsstað göngunnar. Mikil fjalla-hringleið. Vegalengd 13 km. Gönguhækkun 1300 m.
Verð: 3.000/4.500. Innifalið: Fararstjórn. 
Nánar um ferðina og skráning hér.

Barna- og fjölskylduferð: Fuglaskoðunarferð 
11. maí, miðvikudagur

Brottför kl. 17 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Jón Magnússon og Sverrir Thorstensen
Í maí er vorið að vakna og rétti tíminn til að skoða fuglana okkar. Í fuglaskoðunarferðinni ætlum við að reyna að sjá og heyra eins margar tegundir og mögulegt er og kenna ykkur að þekkja sem flesta fugla, bæði staðfugla og farfugla. Tveir skrýtnir og skemmtilegir fuglakallar ætla að leiðbeina okkur við skoðunina. Gott er að hafa með sér kíki og skriffæri svo þarf að klæða sig eftir veðri því það getur verið kalt. Ferðin tekur u.þ.b. 2 klst.
Þátttaka ókeypis.
Nánar um ferðina og skráning hér.         

Fuglaskoðunarferð. Melrakkaslétta
14. maí, laugardagur

Brottför kl. 8 með rútu frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Jón Magnússon og Sverrir Thorstensen
Árleg fuglaskoðunarferð FFA undir leiðsögn kunnáttumanna og að þessu sinni liggur leið okkar út á Melrakkasléttu og víðar. Einstök og fjölbreytt fuglafána er á Sléttu. Fararstjórar velja þá staði sem vænlegastir eru til fuglaskoðunar á þessum árstíma.
Verð: 13.000/15.000. Innifalið: Fararstjórn og rúta. 
Nánar um ferðina og skráning hér.

Gengið um Hegranes
21. maí, laugardagur

Brottför kl. 8 með rútu frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ingibjörg Elín Jónasdóttir
Ekið er sem leið liggur til Sauðárkróks. Fyrst er gengið frá bænum eftir Borgarsandi að Vesturósi Héraðsvatna þar sem Jón Ósmann var ferjumaður. Frá ósnum er ekið svolítinn spotta fram Hegranesið að vestan. Síðari hluti göngunnar hefst sunnan við bæinn Helluland. Gengið inn að miðju Hegraness og eftir bergjunum en þaðan er prýðilegt útsýni til allra átta, m.a. yfir falleg stöðuvötn. Gangan endar við félagsheimilið í sveitinni. Leiðin liggur um mýrasund, grasi vaxna hvamma, holt, móa og hamra. Stansað verður einnig við hið forna Hegranesþing. Vegalengd um 12 km. Gönguhækkun óveruleg.
Verð: 13.000/15.000. Innifalið: Fararstjórn og rúta. 
Nánar um ferðina og skráning hér.

Kaldbakur 1173 m. Skíða- eða gönguferð   skidiskidiskidi  
28. maí, laugardagur

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Vignir Víkingsson.
Kaldbakur er ein af perlum Eyjafjarðar með útsýni allt austur á Langanes og inn á hálendi Íslands. Fjallið er talið vera ein af orkustöðvum Íslands og ferð upp á fjallið er ógleymanleg lífsreynsla. Þar er stór landmælingavarða hlaðin af dönskum landmælingamönnum 1914. Gengin er stikuð leið.Vegalengd alls um 12 km. Gönguhækkun 1140 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn. 
Nánar um ferðina og skráning hér.

 

Júní

Málmey: Saga, náttúra og menning  
4. júní, laugardagur

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Herdís Zophoníasdóttir
Ekið er til Sauðárkróks þaðan sem siglt er út í Málmey með Drangey Tours. Fjölbreytt fuglalíf er í eynni, merkileg saga og náttúra. Gengið um eyna í um tvo tíma í fylgd staðkunnugs leiðsögumanns. Farið verður í útsýnissiglingu að Þórðarhöfða þar sem er stórkostlegt stuðlaberg og Drangey er einnig í sjónmáli. Ferðin tekur 7-8 tíma. Hámarksfjöldi í bátinn er 17 / 20 manns.
Verð: 20.000/22.000. Innifalið: Fararstjórn, sigling og leiðsögn.
Nánar um ferðina og skráning hér.

Elliði í Hjaltadal í Skagafirði
11. júní, laugardagur

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Una Þórey Sigurðardóttir
Ekið aðeins fram í Víðinesdal eftir nýjum bílfærum slóða og þaðan gengið eftir smalaslóða upp á Almenningsháls. Þaðan er gengið út Elliða og niður að afréttarhliði þar sem bíll hefur verið skilinn eftir. Mikið útsýni miðað við hæð, kannski ekki fyrir mjög lofthrædda en það er hægt að ganga vestan í fjallinu þar sem það er mjóst. Vegalengd um 15 km. Mesta hæð 894 m.
Verð: 3.000/4.500. Innifalið: Fararstjórn. 
Nánar um ferðina og skráning hér.

Barna- og fjölskylduferð: Fálkafell - Gamli - Hamrar
11. júní, laugardagur

Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ásrún Ösp Jónsdóttir
Gangan hefst rétt neðan við Fálkafell, gengið er yfir að Gamla og þaðan niður á tjaldsvæðið við Hamra. Heildarvegalengd er um 5,5 km. Gönguhækkun um 190 m.
Þátttaka ókeypis.
Nánar um ferðina og skráning hér.

Blóma- og jógaferð í Leyningshóla
18. júní, laugardagur

Brottför kl. 13 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Brynhildur Bjarnadóttir og Þóra Hjörleifsdóttir
Ekið verður upp á hólabrúnina í mynni Villingadals og gengið þaðan eftir vegi og stígum um hólana. Fræðsla og umræður um trjágróður og á leiðinni skoðum við þau blóm sem á vegi okkar verða og gildi þeirra í náttúrunni. Þátttakendur nota skilningarvitin til að dýpka upplifun sína af náttúrunni. Gangan fer að mestu fram í kyrrð þar sem tækifæri er veitt til að rækta sál og líkama í fallegri náttúru Eyjafjarðar með gönguhugleiðslu ásamt núvitundar- og öndunaræfingum. Létt ganga og ferð við flestra hæfi. Vegalengd alls um 8 km. Gönguhækkun lítil.
Þátttaka ókeypis.
Nánar um ferðina og skráning hér.

Tyrfingsstaðir - Merkigil - Ábær - Skatastaðir
19. júní, sunnudagur

Brottför kl. 8 með rútu frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Herdís Zophoníasdóttir
Ekið vestur í Skagafjörð og fram á Kjálka. Fyrsti áfangi er Tyrfingsstaðir þar sem gamli torfbærinn verður skoðaður. Frá Tyrfingsstöðum er ekið áleiðis að bænum Gilsbakka þaðan sem gangan hefst og gengið niður og um gilið heim að bænum Merkigili. Síðan er gengið áfram sem leið liggur að Ábæ þar sem verður áð og kirkjan skoðuð. Gengið til baka að kláfnum til móts við bæinn Skatastaði vestan ár þar sem við erum ferjuð yfir Austari-Jökulsá þar sem rútan bíður hópsins. Lengd göngu er um 17 km. Gönguhækkun lítil sem engin nema upp úr gilinu.
Verð: 13.000/15.000. Innifalið: Fararstjórn og rúta.
Nánar um ferðina og skráning hér.

21.-24. júní. Gönguvika FFA:

Sumarsólstöður á Þengilhöfða
21. júní, þriðjudagur

Brottför kl. 21 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23. 
Fararstjórn: Roar Kvam
Ekið á einkabílum til Grenivíkur þar sem gangan hefst og er gengið eftir götuslóða upp á höfðann. Ferð við flestra hæfi. Vegalengd alls 4 km. Gönguhækkun 260 m.
Þátttaka ókeypis.
Nánar um ferðina og skráning hér.

Skjaldarvík - Gásir
22. júní, miðvikudagur

Brottför kl. 19 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23. 
Fararstjórn: Björn Vigfússon
Gengið er frá Skjaldarvík meðfram fallegri strönd Eyjafjarðar að Hörgárósum þar sem Gáseyri skagar út í sjóinn. Misjafnt gönguland, fjara, tún, slóðar og gróið land. Gásir við Eyjafjörð var verslunarstaður á miðöldum og má sjá þar friðlýstar fornleifar. Gengið um svæðið, rýnt í söguna og ummerki fornrar byggðar skoðuð. Vegalengd um 7 km. Gönguhækkun óveruleg.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Nánar um ferðina og skráning hér.

Kræðufell. Sólstöðuganga
23. júní, fimmtudagur

Brottför kl. 19 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23. 
Fararstjórn: Roar Kvam
Gengið er á fjallið frá bílastæðinu á Víkurskarði og er þá fylgt stikaðri leið á Ystuvíkurfjall þar sem sveigt er til norðurs, stefnt á Kræðufell. Af fjallinu er mjög gott útsýni yfir til byggðarinnar vestan fjarðarins og til Hríseyjar. Vegalengd alls um 12 km. Gönguhækkun 400 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Nánar um ferðina og skráning hér.

Jónsmessuganga á Múlakollu  
24. júní, föstudagur

Brottför kl. 20 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23. 
Fararstjórn: Bernard Gerritsma og Bóthildur Sveinsdóttir
Gengið upp á Múlakollu frá gamla Múlaveginum, upp dalinn norðan Brimnesár. Geysimikið útsýni til allra átta er af hátindi kollunnar. Vegalengd 8 km. Gönguhækkun 930 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Nánar um ferðina og skráning hér.

Fossdalur  MYNDIR
25. júní, laugardagur

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23. 
Fararstjórn: Helga Guðnadóttir.
Gengið frá Ytri-Á á Kleifum í Ólafsfirði og út í Fossdal þar sem við sjáum Hvanndalabjargið, hæsta standberg landsins. Tilvalin gönguferð fyrir flesta. Vegalengd 10-12 km. Gönguhækkun 100 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Nánar um ferðina og skráning hér.

Barna- og fjölskylduferð: Sólstöðuganga á Haus
25. júní, laugardagur

Brottför kl. 21 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Herdís Zophoníasdóttir
Gengið er eftir stikaðri leið að vörðunni á Haus sem er fyrsti áfanginn þegar gengið er á Staðarbyggðarfjall í Eyjafjarðarsveit. Vegalengd er um 3,3 km. Gönguhækkun 270 m.
Þátttaka ókeypis.
Nánar um ferðina og skráning hér.

 

Júlí

Krepputunga - Sönghofsdalur. Tjaldferð
1.-2. júlí, tveir dagar

Brottför kl. 16 á einkabílum (jeppum, jepplingum) frá FFA, Strandgötu 23. 
Fararstjórn: Ingvar Teitsson
Fólk sameinist í bíla og deili kostnaði. Ekið um Möðrudal og síðar Kverkfjallaslóð inn í Arnardal og tjaldað. Þaðan ekið að Kreppubrú og bílum lagt. Þaðan er gengið á söndum út í tunguna í átt að ármótum, um Sönghofsdal og ummerki um gamla árfarvegi skoðaðir. Vegalengd um 18 km. Gönguhækkun óveruleg.
Verð: 6.500/8.500. Innifalið: Fararstjórn.
Nánar um ferðina og skráning hér        

Rútuferð í Austur-Húnavatnssýslu. Sögu- og menningarferð
2. júlí, laugardagur

Brottför kl. 9 með rútu frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Bragi Guðmundsson
Ekið frá Akureyri um Blönduhlíð, Viðvíkursveit og til Sauðárkróks. Þaðan farið um Laxárdal bak Tindastóli og fyrir Skaga með viðkomu við Ketubjörg og í Kálfshamarsvík. Hádegisverður á Skagaströnd. Þaðan er haldið suður ströndina og um Refasveit til Blönduóss. Þar verður gengið út í Hrútey. Frá Blönduósi er farið fram Svínvetningabraut. Við Tinda er beygt af leið, ekið norðan við Svínavatn og um Svínadal uns komið er aftur á Svínvetningabraut. Farið yfir Blöndu við Brúarhlíð og þaðan á þjóðveg eitt við Ártún og síðan haldið áfram til Akureyrar.
Verð: 15.000/17.000. Innifalið: Fararstjórn og rúta. 
Nánar um ferðina og skráning hér.

Barna- og fjölskylduferð: Nýphólstjörn. Veiðiferð
2. júlí, laugardagur

Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Fjóla Kristín Helgadóttir
Gengið er frá bænum Stóru-Tjörnum í Þingeyjarsveit. Hægt er að veiða í vatninu svo gott er að hafa veiðistangir með. Heildarvegalengd 2,9 km. Gönguhækkun um 250 m.
Greiða þarf 1000 kr. fyrir hverja stöng.
Nánar um ferðina og skráning hér.

Þverbrekkuhnjúkur 1173 m.   
9. júlí, laugardagur

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Viðar Örn Sigmarsson
Farið er frá Hálsi í Öxnadal og þaðan gengið um Vatnsdal á Þverbrekkuhnjúk, síðan um Bessahlaðaskarð og Beitarhúsagil að Hálsi þar sem göngunni lýkur. Vegalengd um 19 km. Gönguhækkun 940 m.
Verð: 3.000/4.500. Innifalið: Fararstjórn. 
Nánar um ferðina og skráning hér.

Bræðrafell - Askja  
14.-17. júlí, fjórir dagar

Brottför kl. 8 á einkabílum (jeppum) frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Maria Johanna van Dijk
1.d. (fimmtudagur). Ekið í Herðubreiðarlindir. Eftir kaffihressingu er gengið um fremur greiðfært hraun í Bræðrafell og gist þar, 17 km.
2.d. Gengið á Kollóttudyngju og Bræðrafell skoðað. Gist í Bræðrafellsskála.
3.d. Gengið frá Bæðrafelli í Drekagil. Vegalengd 17 km. Gist í Dreka.
4.d. Gengið frá Dreka yfir Dyngjufjöll að Öskju. Hópurinn sóttur á bílastæðið við Öskjuop og keyrður til baka í Dreka þar sem bílarnir bíða. Ekið heim um kvöldið.
Bílar þátttakenda verða ferjaðir frá Herðubreiðarlindum upp í Dreka.
Verð: 25.000/30.000. Innifalið: Fararstjórn og gisting.
Nánar um ferðina og skráning hér.                                                                                     

Kerling: Sjö tinda ferð 1538 m.  
16. júlí, laugardagur

Brottför kl. 8 á einkabílum og með rútu frá FFA Strandgötu 23.
Fararstjórn: Baldvin Stefánsson og fleiri.
Ekið að Finnastöðum og gengið þaðan á Kerlingu hæsta fjall í byggð á Íslandi og síðan norður eftir tindunum; Hverfanda (1320 m), Þríklökkum (1360 m), Bónda (1350 m), Litla Krumma, Stóra Krumma, Syðri-Súlu (1213 m) og Ytri-Súlu (1143 m) og niður í Glerárdal. Vegalengd um 20 km. Gönguhækkun 1440 m. 
Verð: 5.000/7.000. Innifalið: Fararstjórn og rúta.   
Nánar um ferðina og skráning hér.  

Barna- og fjölskylduferð: Hálshnjúkur
16. júlí, laugardagur

Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Hulda Jónsdóttir
Gengið er frá bænum Efri-Vöglum í Vaglaskógi, nokkuð brattan slóða upp á Hálshnjúk. Þaðan er mjög gott útsýni. Vegalengd alls 4 km. Gönguhækkun um 400 m.
Þátttaka ókeypis.
Nánar um ferðina og skráning hér.           

Timburvalladalur - Hjaltadalur. Fjallahjólaferð á rafhjóli 
17. júlí, sunnudagur

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Stefán Sigurðsson
Ekið fram í Timburvalladal með hjól á kerrum. Ferðin hefst við Bakkasel í Timburvalladal. Hjólað yfir brú á Bakkaá og stefnan tekin á gangnamannskálann Staupastein í Hjaltadal. Hjaltadalur er vel gróinn og umhverfi mjög fallegt. Þetta er ferð sem hentar þeim sem eru að byrja á rafmögnuðum fjallahjólum. Vegalengd 36 km. Hækkun 250 m.
Verð: 5.000/6.500. Innifalið: Fararstjórn og flutningur á hjólum á sérhönnuðum kerrum.
Nánar um ferðina og skráning hér.    

Laxárdalur Austur-Húnavatnssýslu
23. júlí, laugardagur

Brottför kl. 8 með rútu frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Þorlákur Axel Jónsson
Ekið að bænum Gautsdal þar sem gangan hefst út dalinn út að Kirkjuskarði. Laxárdalur er eyðidalur þar sem sagan er við hvert fótmál. Fararstjórinn þekkir afar vel til og segir sögur af mönnum og byggð í dalnum en nokkur byggð var í dalnum fram á síðustu öld. Eftir göngu verður komið við í Kúskerpi rétt norðan við Blönduós þar sem Þorlákur stundar skógrækt. Vegalengd 13 km. Gönguhækkun lítil.
Verð: 13.000/15.000. Innifalið: Fararstjórn og rúta. 
Nánar um ferðina og skráning hér.

Öskjuvegur. Sumarleyfisferð  
24.-28. júlí, fimm dagar

Brottför kl. 17 með rútu frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Guðlaug Ringsted
Gist í skálum og gengið með lágmarksbúnað, ekið með farangur á milli skála.
1. d. (sunnudagur). Ekið í Dreka, skála FFA austan Dyngjufjalla, með viðkomu í Herðubreiðarlindum. Bíllinn heldur áfram og skilur eftir farangur ferðalanga í Dyngjufjalladal og í Suðurárbotnum.
2. d. Gengið eftir stikaðri leið frá Drekagili, yfir Dyngjufjöll að Öskju, e.t.v. farið í sund í Víti. Hópurinn verður sóttur á bílastæðið við Öskjuop og ekið til baka að Dreka. Vegalengd 13-14 km.
3. d. Ekið upp í Öskjuop. Gengið eftir stikaðri leið þaðan, yfir Dyngjufjöll um Jónsskarð og niður í Dyngjufjalladal. Gist í Dyngjufelli, skála FFA. Vegalengd 14 km.
4. d. Frá Dyngjufelli er gengið norður Dyngjufjalladal í Suðurárbotna. Gist í Botna, skála FFA. Vegalengd 20–22 km.
5. d. Lokadag göngunnar er fylgt gömlum jeppaslóða frá Botna niður um Suðurárbotna og meðfram Suðurá að Svartárkoti. Vegalengd 15–16 km. Ekið til Akureyrar.
Verð: 75.000/80.000. Innifalið: Fararstjórn, gisting, akstur og flutningur á farangri.
Lágmarksfjöldi 10, hámarksfjöldi 15.
Nánar um ferðina og skráning hér

Barna- og fjölskylduferð: Lambi á Glerárdal
31. júlí - 1. ágúst

Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Jónína Sveinbjörnsdóttir
Lagt er af stað frá bílastæðinu við uppgönguna á Súlur og gengið fram Glerárdal í skálann Lamba þar sem gist verður eina nótt. Heildarvegalengd 22 km (11 km hvorn dag). Gönguhækkun 440 m.
Frítt er í ferðina fyrir alla, ekki þarf að greiða fyrir gistinguna. Norðurorka styrkti FFA til þessa verkefnis og þökkum við þeim stuðninginn.
Nánar um ferðina og skráning hér.                   

 

Ágúst

Uxaskarð - Héðinsfjörður
6. ágúst, laugardagur

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Björn Z. Ásgrímsson
Gangan hefst við vegaslóða ofan við Brúnastaðaás. Gengið er fram Héðinsfjarðardal en fyrir botni dalsins er Uxaskarð (700m). Hvergi bratt fyrr en kemur undir skarðið. Í skarðinu sést vel niður Ámárdal, Ámárhyrnu og niður að láglendi innan við Héðinsfjarðarvatn. Sitt hvoru megin við skarðið bera við himin hæstu fjöll á fjallgarðinum milli Héðinsfjarðar og Fljóta, Almenningshnakki og Grænuvallahnjúkur, bæði um og yfir 900 m. Gengið er niður með Ámá eftir fallegu gili með fossum og flúðum. Síðan er vaðið yfir Héðinsfjarðará við ármótin og haldið út hlíðina að austanverðu í átt að munna Héðinsfjarðarganga. Staldrað verður við að tóftum eyðibýlanna Möðruvalla, Grundarkots og Vatnsenda. Vegalengd 16 km. Gönguhækkun 670 m.
Verð: 3.000/4.500. Innifalið: Fararstjórn. 
Nánar um ferðina og skráning hér.

Herðubreið 1682 m.  
12.-14. ágúst, þrír dagar

Brottför kl. 17 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Leo Broers og Viðar Örn Sigmarsson
Árleg ferð FFA á þjóðarfjallið. Ekið í Herðubreiðarlindir og gist þar í tjöldum eða skála í tvær nætur. Gengið á Herðubreið á laugardegi og haldið heim á sunnudegi. Hjálmur, broddar eða klær og ísexi er nauðsynlegur búnaður. Gönguhækkun um 1000 m.
Verð: Í skála: 13.000/18.000. Í tjaldi: 9.000/12.000. Innifalið: Fararstjórn og gisting.
Nánar um ferðina og skráning hér.  

Barna- og fjölskylduferð: Böggvisstaðadalur. Berjaferð
13. ágúst, laugardagur

Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ásrún Ösp Jónsdóttir
Farið er frá bílastæði við Dalvíkurkirkju, þaðan er gengið inn í Böggvisstaðadal og fram að Kofa sem stendur í dalnum. Gengið er í gegnum gott berjaland og því tilvalið að hafa með sér ílát til berjatínslu á bakaleiðinni. Vegalengd alls um 8,5 km. Gönguhækkun 270 m. í upphafi göngunnar.
Þátttaka ókeypis.
Nánar um ferðina og skráning hér.           

Hálshnjúkur við Vaglaskóg 627 m.
20. ágúst, laugardagur

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ósk Helgadóttir
Ekið í Vaglaskóg að Efri-Vöglum þar sem gangan hefst. Gengið er upp hlíðina eftir stikaðri leið og á Hálshnjúkinn með heimamanneskju þar sem er frábært útsýni yfir Fnjóskadal og Ljósavatnsskarð. Farin er sama leið til baka. Vegalengd alls 4 km. Gönguhækkun um 400 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn. 
Nánar um ferðina og skráning hér.

Nípá í Út-Kinn - Náttfaravíkur. Fjallahjólaferð á rafhjóli 
21. ágúst, sunnudagur

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Stefán Sigurðsson
Ekið að Nípá í Út-Kinn með hjól á kerrum. Lagt er síðan upp frá Nípá og hjólað upp grófan jeppaslóða og bak við fjallið Bakranga. Síðan liggur leiðin niður að Purkánni og farið yfir hana á brú. Þaðan liggur slóðin norður og endar á brekkubrún talsvert fyrir ofan Náttfaravíkur. Mikið útsýni til austurs og suðurs. Á þessari leið eru sprænur sem hjóla/vaða þarf yfir. Þetta er ferð fyrir þá sem eru komnir með talsverða reynslu af rafmagnsfjallahjólum. Þar sem hækkun er talsverð í báða enda þarf að huga að rafmagnseyðslu. Vegalengd alls 37 km. Hækkun um 1000 m.
Verð: 5.000/6.500. Innifalið: Fararstjórn og flutningur á hjólum á sérhönnuðum kerrum.
Nánar um ferðina og skráning hér.  

Tungudalsvatn í Fljótum
27. ágúst, laugardagur

Brottför kl. 8 á einkabílum (jeppum, jepplingum) frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Una Þórey Sigurðardóttir
Ekið sem leið liggur yfir Lágheiði að bænum Lundi og beygt í vestur og farið eftir vegaslóða að Fljótaánni og ekið yfir hana ef ekki er of mikið í ánni. Síðan er gengið frá bústöðum við ána eftir kindagötum inn að vatninu sem er falin náttúruperla sem ekki margir þekkja. Þarna er mikið af fjallagrösum og berjum ef vel árar. Vegalengd um 10  km. Gönguhækkun 290 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn. 
Nánar um ferðina og skráning hér.

Gönguferð í samvinnu við Akureyrarstofu - Nánari upplýsingar síðar á www.ffa.is
27. ágúst, laugardagur.

 

September

Skeiðsvatn. Göngu- og jógaferð
3. september, laugardagur

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Þuríður Helga Kristjánsdóttir
Ekið á einkabílum að Skeiði í Svarfaðardal. Gengið er fram að Skeiðsvatni eftir slóða. Gengið um í nágrenni vatnsins og haustlitir skoðaðir. Þátttakendur nota einnig skilningarvitin til að dýpka upplifun sína af náttúrunni. Gangan fer að mestu fram í kyrrð þar sem tækifæri er veitt til að rækta sál og líkama í fallegri náttúru við vatnið með gönguhugleiðslu ásamt núvitundar- og öndunaræfingum. Ferð við flestra hæfi. Vegalengd um 8 km. Gönguhækkun 190 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn. 

Heimsókn í gíga Kröflugosa. Jarðfræði og hraunmyndanir
10. september, laugardagur

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Þóroddur Þóroddsson
Ekið að bílastæði við Víti. Gengið eftir bílslóð að Hreindýrahól og útsýnis notið af hólnum. Þaðan er gengið norður á Sandmúla og að Kröfluhrauni norðan hans og vestan og farið um gíga og hraunið frá 1980. Á bakaleið verður í fyrstu gengið með gossprungu frá 1981 og sem mest á helluhrauni. Vegalengd 20 km. Gönguhækkun 200-300 m.
Verð: 3.000/4.500. Innifalið: Fararstjórn. 
Nánar um ferðina og skráning hér.

Svartárkot - Suðurárbotnar. Fjallahjólaferð á rafhjóli 
11. september, sunnudagur

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Stefán Sigurðsson
Ekið að Svartárkoti í Bárðardal með hjól á kerrum. Lagt upp frá Svartárkoti og hjólað til suðurs eftir ágætum jeppaslóða um mólendi suður með Suðurá en eftir 7 km er hjólað inn á aflagðan jeppaslóða sem liggur í gegnum hraun og síðast úfið hraun. Endað í Botna sem er skáli FFA. Þessi leið er heldur betur fyrir augað, mikil fjallasýn og svo er magnað að sjá hvernig vatnið þrýstist undan hrauninu og myndar ána. Vegalengd alls um 30 km. Hækkun óveruleg.
Verð: 5.000/6.500. Innifalið: Fararstjórn og flutningur á hjólum á sérhönnuðum kerrum.
Nánar um ferðina og skráning hér

Haustlitaferð í Jökulsárgljúfur - Hólmatungur - Ásbyrgi  
17. september, laugardagur

Brottför kl. 8 með rútu frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Guðlaug Ringsted
Farið með rútu í Hólmatungur í Jökulsárgljúfrum. Síðan er gengið niður með gljúfrum Jökulsár á Fjöllum en í miklum jökulflóðum hefur hún mótað það fjölbreytta landslag sem við göngum um. Gengið um Hólmatungur, Vesturdal, Hljóðakletta og Kvíar. Haustlitaferð í smáfríðu og stórbrotnu landslagi sem varla á sinn líka hér á landi. Vegalengd 23 km. Gönguhækkun óveruleg.
Verð: 14.000/16.000. Innifalið: Fararstjórn og rúta.
Nánar um ferðina og skráning hér.

Dagmálanibba 860 m.
24. september, laugardagur

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Þuríður Helga Kristjánsdóttir
Ekið að bænum Hofi í Svarfaðardal þar sem lagt er á fjallið norðan Hofsár og gengið upp hlíðina en síðan sveigt til norðurs ofan við Hofsskál. Gengið er skáhallt norður og upp Efrafjall. Komið er upp á fjallið sunnan við Dagmálanibbu og gengið norður á nibbuna. Vegalengd alls 10 km. Gönguhækkun 830 m.
Verð 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Nánar um ferðina og skráning hér.

 

Október

Sölvadalur - árgljúfur  
1. október, laugardagur

Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Njáll Kristjánsson.
Ekið sem leið liggur fram í Sölvadal sem er fallegur framdalur í Eyjafirði þar sem skoðuð verða mjög falleg og sérkennileg árgljúfur sem áin hefur mótað í aldanna rás. Gönguhækkun óveruleg.
Þátttaka ókeypis.
Nánar um ferðina og skráning hér.

 

Nóvember

Þverbrekkuvatn
5. nóvember, laugardagur

Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Herdís Zophoníasdóttir
Ekið sem leið liggur fram í Öxnadal að bænum Hálsi þar sem gangan hefst. Þægileg ganga fyrir alla í stórbrotnu umhverfi. Vatnið er í um 410 m hæð. Vegalengd alls um 4 km. Gönguhækkun 140 m.
Þátttaka ókeypis.
Nánar um ferðina og skráning hér.